Málþing um öryggi sjúklinga var haldið í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í gær. Meðal þeirra sem fluttu þar erindi var Marta Jóns Hjördísardóttir, talskona sjúklinga á Landspítala. Hún tók við embættinu í júní eftir ákall um að slíkt embætti væri full staða við spítalann.
Þyrftum að vera fleiri
„Ég vona að þetta sé vísir að einhverju stærra. Við myndum helst vilja hafa þjónustumiðstöð á Landspítala sem sinnti ábendingum og kvörtunum sjúklinga. Þá er mikilvægt að hafa í huga að mitt hlutverk er að vera talskona sjúklinga á Landspítala og ég starfa sem slík. Til framtíðar er væntanlega gott að það sé til staðar einhvers konar umboðsmaður sjúklinga sem starfar ekki inn á stofnuninni og er algjörleg hlutlaus gagnvart henni,“ segir Marta.
Heilbrigðisstarfsfólk verði að hlusta
Hún segist þegar hafa fengið talsvert af erindum til sín frá sjúklingum.
„Það er alltaf verið að tala um það sama. Það er mikið álag, mikil bið. Fólk er oft orðið mjög þreytt og það er oft erfitt að vera sjúklingur þegar þú ert mjög lasin og það er mikið í gangi. Þá er erfitt að vera sífellt að berjast fyrir máli sínu,“ segir hún.
Marta segir að hlutverk hennar sé að koma ábendingum og umkvörtunum sjúklinga á framfæri við heilbrigðisstarfsfólk.
„Oft þegar sjúklingar segja eitthvað eða eru að tala um lyfin sín þá er þeim ekki tekið nægilega vel. Það er stór áskorun hjá öllu heilbrigðisstarfsfólki. Við verðum að fara úr þessu valdahlutverki sem við erum þjálfuð að vera í. Þar sem starfsmaðurinn er er að segja fólki til og hvað það eigi að gera. Heilbrigðisstarfsfólk á fyrst og fremst að hlusta opinskátt á sjúklinginn og hafa hann með í allri ákvörðunartöku og meðferð,“ segir hún.
Marta telur að ábendingum sínum um bætt vinnubrögð á spítalanum verði vel tekið.
„Ég vona að mér verði tekið vel. Mér hefur verið tekið vel hingað til. Við erum öll á leið í sömu átt. Á Landspítala stefnum við öll í sömu átt. Við ætlum að hlusta meira á sjúklinga og það er stefnan sem er verið að fara í og við fylgjum þeirri stefnu,“ segir Marta að lokum.