Körfubolti

Áhorfspartí á Ís­landi vekur at­hygli

Sindri Sverrisson skrifar
Caitlin Clark hefur komið af stað hálfgerðu æði með frammistöðu sinni á körfuboltavellinum.
Caitlin Clark hefur komið af stað hálfgerðu æði með frammistöðu sinni á körfuboltavellinum. Getty/Justin Casterline

Áhugi Íslendinga á körfuboltakonunni Caitlin Clark hefur vakið athygli en stór hópur safnaðist saman í Minigarðinum á sunnudaginn til að fylgjast með leik í bandarísku WNBA-deildinni.

Eins og fram kom í frétt Stöðvar 2 á sunnudagskvöld þá er það auðvitað Caitlin Clark sem vekur mestan áhuga en hún skoraði 35 stig fyrir Indiana Fever í eins stigs sigri á Dallas Wings, 110-109.

Íþróttahetjurnar fyrrverandi Helena Sverrisdóttir og Silja Úlfarsdóttir stóðu fyrir veislunni í Minigarðinum sem nú hefur vakið athygli út fyrir landsteinana.

Á Twittersíðunni Clark Report, þar sem fylgst er með öllu sem tengist Caitlin Clark, er sagt frá því að íslenskar konur séu farnar að safnast saman til að horfa á hana spila, jafnvel þó að leikirnir í Bandaríkjunum hefjist nálægt miðnætti.

Alls hafa rúmlega 700.000 manns séð færslu um þetta á síðunni, þegar þetta er skrifað.

Á morgun og á föstudag er síðasta umferðin í deildakeppni WNBA-deildarinnar spiluð, og ljóst að Indiana endar í 6. sæti af tólf liðum.

Indiana hefur því þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitakeppninni, í fyrsta sinn síðan árið 2016, en úrslitakeppnin hefst á sunnudaginn og henni lýkur 20. október. Mótherji Indiana í 8-liða úrslitunum verður annað hvort Connecticut Sun eða Las Vegas Aces.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×