Fótbolti

Markafjöldi Haalands kemur Guardiola á ó­vart

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guardiola og Haaland fara yfir málin.
Guardiola og Haaland fara yfir málin. James Gill - Danehouse/Getty Images

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, segir fjölda marka Norðmannsins Erling Haaland koma sér á óvart. Haaland hefur raðað inn mörkum á ferli sínum en náð nýjum hæðum í upphafi yfirstandandi leiktíðar.

Guardiola sat fyrir svörum á blaðamannafundi í aðdraganda leiks liðsins við Inter Milan í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Þar var hann spurður hvort markafjöldi Norðmannsins kæmi sér á óvart.

Haaland hefur skorað níu mörk í fyrstu fjórum deildarleikjum tímabilsins fyrir Manchester City, en alls hefur hann skorað 99 mörk í 103 leikjum fyrir félagið frá árinu 2022.

„Já, þetta hefur aðeins komið á óvart. Veistu af hverju?“ spyr Guardiola blaðamanninn sem bar spurninguna upp.

„Ég spilaði í ellefu ár sem atvinnumaður. Ég var atvinnumaður í gamla daga, vissiru það?“ segir hann léttur.

„Ég skoraði ellefu mörk [á öllum ellefu árunum]. En þessi gæji, í fjórum leikjum skorar hann níu. Einn leikur til og hann jafnar fjölda minna marka. Eins og þú getur ímyndað þér, þá koma þessar tölur á óvart,“ bætir Guardiola við.

Manchester City og Inter Milan mætast í Meistaradeild Evrópu klukkan 19:00 í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

Á Stöð 2 Sport 2 verður Meistaradeildarmessan á sínum stað klukkan 19:00 þar sem Gummi Ben fer yfir alla leiki og öll mörk úr leikjunum eftir því sem þau eru skoruð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×