Innlent

Enda­laus þrauta­ganga Haraldar eftir svörum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Haraldur Ingi Þorleifsson gagnrýnir stjórnvöld harðlega.
Haraldur Ingi Þorleifsson gagnrýnir stjórnvöld harðlega. Vísir/Vilhelm

Haraldur Ingi Þorleifsson, frumkvöðull og baráttumaður, lýsir þrautagöngu sinni við það að fá svör um notendastýrða persónulega aðstoð, eða NPA. Biðlistar eftir þjónustunni eru langir, þrátt fyrir að hún sé lögbundinn. Hann gagnrýnir stjórnvöld harðlega.

Fjallað var um málefni NPA í Kastljósi á Rúv í kvöld, en Haraldur segir þáttinn hafa verið átakanlegan.

Rætt var við Indu Hrönn Björnsdóttur, eiginkonu Óskars Kemp sem lenti í bílslysi árið 2018 og hlaut alvarlegan heilaskaða. Læknar telja hann þurfa aðstoð allan sólarhringinn, en nú sex árum síðar fær hann enn ekki fulla NPA-þjónustu.

„Saga af manni sem slasaðist fyrir nokkrum árum og fær ekki aðstoð sem hann þarf. Konan hans er sett í þá aðstöðu að hjúkra honum sem er gífurlegt álag á fjölskyldulífið. Ég þekki það sjálfur,“ skrifar Haraldur í færslu á Twitter.

Þar lýsir hann því að hann hafi í sumar reynt að fá svör um NPA, en hann bendir á að um sé að ræða lögbundna þjónustu fyrir fólk með fötlun sem sveitarfélög eigi að veita.

Erfitt að fá svör

Haraldur segir reynslu sína af því að sækja um þjónustuna hjá Reykjavíkurborg ekki hafa verið auðvelda.

„Á vef Reykjavíkurborgar er engin umsókn. Þannig að ég hringdi. Fékk samtal við manneskju sem benti mér á að sækja um á netinu. Ég sagði að það væri ekki hægt og hún játaði því á endanum,“ segir Haraldur.

„Þá var mér sagt að ég fengi símtal. Það kom aldrei.“

Hann segist hringt á nýjan leik og að hann hafi aftur fengið svör um að sækja um á netinu. Hann hafi endurtekið að það væri ekki hægt og honum hafi aftur verið sagt að það yrði hringt í hann.

„Aftur kom ekkert símtal.“

Enginn viti svarið

Á endanum hafi honum tekist að ná í manneskju sem vinni í þessum málum hjá Reykjavíkurborg.

„Ég spurði hvernig ferlið væri og hvað það tæki langan tíma. Þá kom í ljós að eftir að búið er að fara í gegnum ítrekað og langt umsóknarferli þá fer umsóknin fyrir nefnd á vegum borgarinnar. Ég spyr hvað gerist þegar umsóknin er samþykkt, hvað tekur langan tíma þangað til að þjónustan byrjar. Þá segir sérfræðingur borgarinnar að enginn viti svarið við þeirri spurningu,“ segir Haraldur.

Hann hafi haft samband við forstöðukonu velferðarsviðs og spurt hana sömu spurningar, og hún sagt að það væri nefnd á vegum ríkis og sveitarfélaga sem væri að fjalla um þetta.

„Ég hef samband við formann nefndarinnar. Þá er mér sagt að nefndin sé alls ekki að fjalla um NPA samninga. Starfsmaður nefndarinnar segir mér svo að það sé best að fara í mál við borgina.“

Aftur sagt að besta lausnin sé að kæra

Í kjölfarið bað Haraldur um fund með forstöðukonu velferðarsviðs „Þar er mér sagt að þeirra hendur séu bundnar. Að ákvörðunin að fjármagna ekki samningana sé hjá borgarstjóra og borgarráði.“

Hann hafi fengið að vita að þrjátíu manns væru á biðlista og að vonir stæðu til um að sjö umsóknir yrðu fjármagnaðar á árinu.

„Ekki að það sé ákveðið, að það sé vonast til þess. Ég spyr hvað markmiðið sé á næsta ári. Þær segja mér að það verði vonandi sjö,“ segir Haraldur sem áætlar því að biðlistinn sé um fimm ár.

Þá bendir hann á að hann hafi aftur fengið þau skilaboð að besta lausnin væri líklega að fara í mál við borgina. „Þetta eru sem sagt borgarstarfsmenn að segja mér að kæra borgina.“

Ráðherra komi af fjöllum

Þar á eftir hafi Haraldur rætt við borgarstjóra og formann borgarráðs. Þeir hafi sagt honum að vandamálið væri að ríkið hafi ekki komið með fjármagn til þess að hægt væri að fjármagna þjónustuna.

„Ég fer þá á fund með félagsmálaráðherra. Hann kemur af fjöllum. Segir að hann vissi ekki af því að það sé eitthvað vandamál. Ráðherra málaflokksins veit sem sagt ekki að það er fimm ára biðlisti eftir lögbundinni þjónustu. Hann virtist ekki skammast sín fyrir þessa vankunnáttu,“ segir Haraldur.

„Hann segir mér líka að það hafi aldrei neinn frá sveitarfélögunum komið því á framfæri að eitthvað vantaði upp á með fjármögnun.“

Aftur segist Haraldur hafa rætt við borgarstjóra og formann borgarráðs og að þeir hafi tekið saman mjög ítarlegan lista yfir athugasemdir sem sveitarfélögin hafi sent á ráðuneytið.

„Ég sendi listann á félagsmálaráðherrann. Og ég legg til að það væri kannski sniðugt ef ráðherrann og borgarstjóri myndu hittast og ræða þetta alvarlega mál,“ segir hann.

„Það kom ekkert svar frá ráðherranum þrátt fyrir nokkrar ítrekanir. Eftir því sem ég best veit hafa þeir ekki ennþá rætt málið.“

Nálgunin að gera sem minnst

Þar á eftir hafi Haraldur hitt fjármálaráðherra og sagt honum frá stöðunni. Hann hafi lagt til að koma þessu í umræður um fjárlög. Ráðherrann hafi tekið vel í það, en síðan hætt að svara fyrirspurnum, og málið hafi ekki farið í fjárlagafrumvarpið.

„Flestir sem sækja um þessa þjónustu eru mjög veikir,“ segir Haraldur sem bendir á að þetta fólk hafi ekki sömu möguleika og hann á að hitta ráðamenn til þess að ræða um málið.

„Nálgun ráðamanna virðist vera að gera sem minnst. Helst hunsa vandamálið og vona að einhver annar leysi það,“ segir hann.

„En það leysist ekki af því að það er ekkert samtal. Af því að þessir einstaklingar eru raddlausir og það er hægt að gera ekki neitt.“

„Verða veikari og veikari af því að aðstoðin kemur ekki“

Haraldur segir stjórnvöld treysta á að fólkið sem þurfi þessa lögbundnu þjónustu kæri ekki.

„Þau eru of veik. Þau fáu sem kæra eru sett fram fyrir röð. Hinir eru heima með takmarkaða aðstoð. Oft mikið þjáð. Þeir sem eiga engan að eru sendir á elliheimili, ungt fólk. Sumir deyja. Verða veikari og veikari af því að aðstoðin kemur ekki.“

Þá segir hann aðstandendur fólksins eiga það til að brenna út, og í sumum tilfellum verði þeir sjálfir öryrkjar vegna álagsins.

„Þeir þurfa að velja á milli þess að fórna sinni heilsu, og lífi, til að sinna þeim sem þau elska. Þetta er ótrúlegt ástand. Og ábyrgðin er hjá stjórnvöldum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×