Fótbolti

Haaland neitaði að gefa Acerbi treyjuna sína eftir að hann hafði í­trekað togað í hana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erling Haaland og Francesco Acerbi tókust vel á í leik Manchester City og Inter í gær.
Erling Haaland og Francesco Acerbi tókust vel á í leik Manchester City og Inter í gær. getty/Mattia Ozbot

Erling Haaland, framherji Manchester City, var ekki á því að gefa Francesco Acerbi, varnarmanni Inter, treyjuna sína eftir leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í gær.

Acerbi og félagar í vörn Inter höfðu góðar gætur á Haaland í leiknum og Norðmaðurinn komst lítt áleiðis.

Reynsluboltinn Acerbi beitti öllum brögðum til að stöðva Haaland en eftir leikinn bað hann norska framherjann um treyju hans.

Haaland virtist segja Acerbi að fara í rassgat og greip reglulega í treyjuna sína til að sýna hvaða brögðum Ítalinn hefði beitt til að stöðva hann í leiknum.

Það fór samt greinilega vel á með þeim Haaland og Acerbi og þeir skildu sáttir. Ekki er þó vitað hvort Acerbi fékk treyjuna hans Haalands á endanum.

Haaland er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með níu mörk í fjórum leikjum. Hann hefði getað skorað sitt hundraðasta mark fyrir City í gær en það gekk ekki.

Haaland fær annað tækifæri til að skora hundraðasta markið þegar City fær Arsenal í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×