Fótbolti

Segir að Saliba og Gabriel séu besta miðvarðapar í Evrópu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
William Saliba og Gabriel fagna marki þess síðarnefnda í sigrinum á Tottenham á dögunum.
William Saliba og Gabriel fagna marki þess síðarnefnda í sigrinum á Tottenham á dögunum. getty/Justin Setterfield

Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir að Arsenal-mennirnir William Saliba og Gabriel myndi besta miðvarðapar Evrópu.

Frakkinn og Brassinn hafa náð afar vel saman í vörn Arsenal undanfarin þrjú tímabil og eiga stóran þátt í því að liðið hefur verið í baráttu um Englandsmeistaratitilinn.

Ferdinand myndaði eitt besta miðvarðapar Evrópu með Nemanja Vidic á sínum tíma og hann er hrifinn af þeim Saliba og Gabriel. Fyrir viðureign Atalanta og Arsenal var Ferdinand spurður að því hvort þeir Saliba og Gabriel væru besta miðvarðapar Evrópu. 

„Já, klárlega. Ég held að þeir séu það. Þeir hafa sannað það síðustu tímabil,“ sagði Ferdinand.

„Þeir eru traustir og harðir af sér. Þeir gera hlutina á ólíkan hátt og mynda frábæra blöndu. Saliba er aðeins rólegri og vill hreinsa upp á meðan Gabriel tekur frumkvæði, eins konar Martin Keown-týpa. Þeir vega hvorn annan svo vel upp.“

Ferdinand hrósaði einnig hægri bakverðinum Ben White og markverðinum David Raya og sagði að Arsenal væri heilt yfir með bestu vörnina í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal gerði markalaust jafntefli við Atalanta í gær. Næsti leikur liðsins er gegn Manchester City á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

„Ein besta mark­varsla sem ég hef séð“

Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, átti vart lýsingarorð yfir tvöfalda markvörslu David Raya í markalausu jafntefli liðsins gegn Atalanta í Bergamo á Ítalíu. Leiknum lauk með markalausu jafntefli og getur Arteta þakkað auðmjúkum markverði sínum kærlega fyrir það. Raya hrósaði hins vegar markmannsþjálfara liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×