Fótbolti

Glæsimörk Mundu eftir tveggja ára bið

Sindri Sverrisson skrifar
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir á ferðinni í leik með Harvard.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir á ferðinni í leik með Harvard.

Knattspyrnukonan Áslaug Munda var hetja Harvard-háskólaliðsins í gær þegar það gerði 2-2 jafntefli á útivelli gegn Santa Clara Broncos í bandaríska háskólaboltanum.

Áslaug Munda hefur glímt mikið við meiðsli undanfarin misseri en skoraði tvö glæsileg mörk í leiknum í gær, og batt þar með enda á 736 daga bið eftir marki – hvort sem er fyrir Harvard, Breiðablik eða íslenska landsliðið.

Fyrra markið skoraði hún með frábæru skoti af vítateigslínunni og jafnaði metin í 1-1, og það seinna skoraði þessi örvfætta landsliðskona með hægri fæti, einnig upp í vinkilinn. Mörkin má sjá hér að neðan.

Fyrra markið skoraði Áslaug Munda eftir sendingu frá Írenu Héðinsdóttur Gonzalez sem þar með átti sína fyrstu stoðsendingu fyrir Harvard-liðið.

Lið Harvard er því enn taplaust á leiktíðinni en hefur unnið fjóra leiki og gert fjögur jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×