Fótbolti

Stál­heppinn að vera á lífi og gæti snúið aftur með Aroni

Sindri Sverrisson skrifar
Sergio Rico tók því rólega á ströndinni í Cadiz á Spáni í sumar en það styttist í endurkomu hans á fótboltavöllinn.
Sergio Rico tók því rólega á ströndinni í Cadiz á Spáni í sumar en það styttist í endurkomu hans á fótboltavöllinn. Getty/Leandro Wassault

Markvörðurinn Sergio Rico, sem læknar telja nánast kraftaverk að sé á lífi, hefur ákveðið að snúa aftur í fótboltann og allt útlit er fyrir að hann geri það með nýja liðinu hans Arons Einars Gunnarssonar, Al-Gharafa í Katar.

Minnstu munaði að Rico léti lífið í maí á síðasta ári þegar hann féll af hestbaki. Hann hlaut þungt höfuðhögg við fallið sem og hesturinn traðkaði á honum. Við það hlaut hann slæm meiðsli á hálsi. Rico var í dái til 9. júní og haldið á gjörgæslu þangað til 5. júlí.

Samkvæmt læknum hefði markvörðurinn dáið samstundis ef áverkarnir hefðu verið hálfum sentímetra dýpri.

Rico var á þessum tíma á mála hjá PSG í Frakklandi en samningur hans við félagið rann út í sumar.

Samkvæmt ítalska blaðamanninum Matteo Moretto eru viðræður við Al-Gharafa komnar vel á veg og allt útlit fyrir að Rico verði leikmaður félagsins. Hann bætist þar með við hóp erlendra leikmanna liðsins líkt og Aron.

Rico er frá Sevilla á Spáni og í liði Al-Gharafa eru til að mynda tveir samlandar hans, sóknarmennirnir Joselu og Rodrigo.

Moretto lætur þess getið að Rico sé að verða faðir í fyrsta sinn, nú þegar styttist í endurkomu þessa 31 árs gamal markvarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×