Viðskipti innlent

Mun leiða fersk­vatns­eldi hjá First Wa­ter

Árni Sæberg skrifar
Arnþór Gústavsson.
Arnþór Gústavsson.

Landeldisfyrirtækið First Water hefur ráðið Arnþór Gústavsson í nýtt starf innan fyrirtækisins en hann fer úr starfi gæðastjóra yfir í að stýra ferskvatnseldi félagsins.

Í tilkynningu kemur fram að Arnþór sé með M.Sc gráðu í fiskeldislíffræði frá Háskólanum í Bergen auk þess að vera með BSc. í fiskeldi og BSc. í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Einnig hafi hann lokið framhaldsnámi í fiskeldi frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal.

„Arnþór hóf starfsferil sinn í landeldisgreininni hjá Silfurstjörnunni í Öxarfirði árið 2000. Eftir frekara nám og störf við rannsóknir og kennslu við Háskólann á Hólum, lá leiðin aftur í iðnaðinn, þar sem Arnþór tók meðal annar þátt í uppbyggingu Arctic Fish á Vestfjörðum,“ segir í tilkynningunni. 

Ennfremur segir að First Water eigi og reki seiðaeldisstöð að Öxnalæk í Ölfusi en stöðin sjái starfseminni fyrir öllum laxaseiðum þess. Hröð uppbygging félagsins kalli á aukna afkastagetu og verði henni mætt með byggingu nýrrar seiðastöðvar. Þá segir að Arnþór gangi til liðs við öflugt teymi sem annast núverandi rekstur og byggi upp þessa nýju tæknivæddu seiðastöð í Þorlákshöfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×