Fótbolti

Börsungar bannaðir í Belgrad vegna nasistafána

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn Barcelona geta ekki fjölmennt til Belgrad.
Stuðningsmenn Barcelona geta ekki fjölmennt til Belgrad. Getty/Chris Ricco

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona fær ekki að hafa stuðningsmenn á útileik sínum gegn Rauðu stjörnunni í Meistaradeild Evrópu í fótbolta, vegna nasistafána.

UEFA ákvað að Barcelona mætti ekki selja miða á leikinn í Belgrad í nóvember, og sektaði auk þess spænska risann um 10.000 evrur eða jafnvirði 1,5 milljónar króna.

Ástæðan sem UEFA gaf fyrir þessu var brot á reglum um kynþáttaníð, á meðal stuðningsmanna Barcelona í 2-1 tapinu gegn Monaco 19. september.

Í stúkunni á leiknum mátti sjá menn halda uppi fána sem á stóð „Flick heil“, með vísun í kveðju nasista og í þýska þjálfarann Hansi Flick sem þarna stýrði Barcelona í fyrsta sinn í Evrópuleik.

Undir stjórn Flick hefur Barcelona unnið alla sjö leiki sína í spænsku deildinni og er á toppi hennar.

Barcelona hafði áður verið dæmt í áhorfendabann á einum útileik eftir 8-liða úrslitin gegn PSG á síðustu leiktíð en það bann var skilorðsbundið í eitt ár.

Þrír stuðningsmenn Barcelona voru handteknir eftir leikinn við PSG og gefið að sök að hafa látið rasísk ummæli falla auk þess að gera nasistakveðjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×