Erlent

Trump lét sér ekki segjast og endur­tók lygina

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Trump heimsótti Valdosta í gærkvöldi þar sem tjónið af völdum Helenu er mikið.
Trump heimsótti Valdosta í gærkvöldi þar sem tjónið af völdum Helenu er mikið. EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Donald Trump heimsótti í gær bæinn Valdosta í Georgíuríki en bærinn er sem rústir einar eftir að fellibylurinn Helena gekk þar yfir.

Trump hélt ræðu fyrir framan rústir húsgagnaverslunar þar sem hann fullyrti að Joe Biden forseti hefði verið sofandi þegar ríkisstjóri Georgíu reyndi að ná í hann vegna hamfaranna.

Þetta var í annað sinn sem Trump hélt þessu fram í gær en í millitíðinni hafði ríkisstjórinn sjálfur, Brian Kemp, stigið fram og sagt að ekkert væri til í þessari fullyrðingu. Engu að síður endurtók Trump lygina í gærkvöldi.

Kemp segist þvert á móti hafa verið í stöðugu sambandi við Kamölu Harris varaforseta auk þess sem Biden forseti hafi hringt og boðið fram aðstoð alríkisins í þeim hörmungum sem eru að ganga yfir. Biden sjálfur brást einnig reiður við þessum lygum þegar hann var spurður út í þær í gærkvöldi og sagði óábyrgt af Trump að fara með slíka staðlausa stafi á tímum sem þessum.

Trump, sem ferðaðist til Valdosta með sjónvarpspredikaranum Franklin Graham sagðist einnig koma færandi hendi með gríðarlegt magn hjálpargagna fyrir íbúa Georgíu. Óljóst er þó um hvað er að ræða fyrir utan einn tankbíl af bensíni og nokkrar vatnsflöskur. Breska blaðið Guardian reyndi að fá nánari útlistingar á aðstoðinni frá fyrirtæki sjónvarpspredikarans, en fékk aðeins þau svör að nokkrir prestar hefðu verið sendir á staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×