Íslenski boltinn

Snýr aftur heim í KR

Sindri Sverrisson skrifar
Óliver Dagur Thorlacius er mættur aftur í KR-treyjuna.
Óliver Dagur Thorlacius er mættur aftur í KR-treyjuna. KR

Miðjumaðurinn Óliver Dagur Thorlacius er snúinn aftur í KR og hefur skrifaði undir samningu við félagið sem gildir til næstu þriggja ára.

Óliver Dagur kemur til KR frá Fjölni eftir að hafa spilað í Grafarvoginum síðustu tvö tímabil, og í bæði skiptin farið í umspil Lengjudeildarinnar um sæti í Bestu deildinni.

Þar áður lék Óliver Dagur með Gróttu en núverandi þjálfari KR, Óskar Hrafn Þorvaldsson, fékk hann á Seltjarnarnesið þar sem Óliver lék í þremur deildum á þremur árum; 2. deild, 1. deild og efstu deild. Hann tók svo tvö tímabil með Gróttu í næstefstu deild áður en hann skipti yfir til Fjölnis fyrir tímabilið 2023.

Óliver Dagur náði að spila tvo fyrstu leiki sína í efstu deild með KR, 2017, áður en hann fór til Gróttu. Hann á samtals að baki átján leiki í efstu deild.

KR-ingar halda því áfram að endurheimta fyrrverandi leikmenn en í síðasta mánuði skrifaði Gabríel Hrannar Eyjólfsson undir samning við félagið, eftir að hafa spilað með Gróttu og þar áður Vestra. Guðmundur Andri Tryggvason, Gyrðir Hrafn Guðbrandsson og Ástbjörn Þórðarson sneru svo allir aftur í ágúst, áður en félagaskiptaglugginn lokaðist.

KR hefur einnig tryggt sér krafta hins danska Matthias Præst sem kemur frá Fylki eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×