Erlent

Fyrsta heim­sókn Rutte til Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Rutte og Vólódímír Selenskí í Kænugarði í morgun.
Mark Rutte og Vólódímír Selenskí í Kænugarði í morgun. Forsetaembætti Úkraínu

Mark Rutte, nýr framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins og fyrrverandi forsætisráðherra Hollands, er í heimsókn í Kænugarði í Úkraínu. Þetta er fyrsta opinbera ferð Rutte frá því hann tók við embættinu á þriðjudaginn en hún var ekki opinberuð fyrr en hann var kominn þangað í morgun.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, opinberaði heimsókn Rutte, á samfélagsmiðlum í morgun.

Forsetinn sagði heimsóknina marka helstu áherslur NATO um þessar mundir og það að Úkraínumenn gætu treyst á áframhaldandi stuðning bandalagsins undir stjórn Rutte.

Rutte hét áframhaldandi stuðningi við Úkraínu gegn innrás Rússa á fundinum með Selenskí í morgun.

Þá sagði Selenskí að helsta markmið Úkraínumanna væri aðild að NATO og að á fundi með Rutte hafi þeir meðal annars rætt svokallaða siguráætlun Selenskís, ástandið á vígvöllunum í Úkraínu og í Rússlandi og þarfir Úkraínumanna.

Selenskí sagði Úkraínumenn þurfa að bæta loftvarnir sínar í aðdraganda veturs. Það væri gífurlega mikilvægt.

Rutte tók við starfi framkvæmdastjóra NATO af Jens Stoltenberg en hann hafði þá sinnt því frá árinu 2014, þegar Rússar hertóku Krímskaga og stuttu aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.


Tengdar fréttir

Hækka fjárútlát til varnarmála um þriðjung

Ráðamenn í Rússlandi vilja hækka fjárútlát til varnarmála um tæpan þriðjung á næsta ári, samanborið við þetta ár. Þetta kemur fram í fjárlagadrögum sem birt voru í gær. Um metupphæð er að ræða en verðbólga hefur hækkað hratt í Rússlandi á undanförnum mánuðum.

Selenskí fundaði með Trump

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, fundaði í dag með Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og forsetaframbjóðanda. Trump hefur á undanförnum mánuðum ítrekað gagnrýnt stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu varðandi varnir þeirra gegn innrás Rússlands.

Vísar á bug til­lögum um frið í skiptum fyrir úkraínskt land

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, lýsti tillögum um að Úkraínumenn afsali sér landsvæði sínu til þess að kaupa sér frið við Rússa sem hættulegum og óásættanlegum í dag. Það væru ekki friðartillögur heldur uppgjafartillögur.

Sendir Patriot, svifsprengjur og skotfæri til Úkraínu

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag umfangsmikla hernaðaraðstoð til Úkraínu og sagði hann að stuðningurinn ætti að hjálpa Úkraínu að „vinna“ stríðið gegn Rússum. Hann mun seinna í dag fá Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, í heimsókn til Hvíta hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×