Íslenski boltinn

„Við höfum líka mikið af vopnum í okkar búri“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásgerður Stefanía (önnur frá vinstri) segir Valskonur klárar í stórleik laugardagsins.
Ásgerður Stefanía (önnur frá vinstri) segir Valskonur klárar í stórleik laugardagsins. Vísir/Anton Brink

„Mjög góða. Búnar að halda spennustiginu nokkuð vel. Erum, tilbúnar í þetta,“ sagði  Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, aðstoðarþjálfari Vals, um leik morgundagsins sem sker úr um hvort Íslandsmeistaratitillinn verði áfram á Hlíðarenda eða færi sig yfir í Kópavog.

Á morgun mætast Valur og Breiðablik á Hlíðarenda í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Valur er ríkjandi Íslandsmeistari og verður að vinna þar sem jafntefli dugir Blikum.

Breiðablik vann leik liðanna á Kópavogsvelli 2-1 en Valur hefndi sín á Hlíðarenda og vann 1-0 sigur. Þá vann Valur 2-1 sigur þegar liðin mættust í úrslitum Mjólkurbikarsins. Adda, eins og Ásgerður Stefanía er nær alltaf kölluð, býst við erfiðum leik.

„Mikil áskorun, mikið af leikmönnum sem við þurfum að stoppa. Verður stórskemmtilegur leikur. Við höfum líka mikið af vopnum í okkar búri þannig að þetta verður skák.“

Er mikilvægt að spila svona leik á heimavelli?

„Mér finnst það. Okkur líður best hér heima á okkar velli, eins og flestum liðum. Það skipti okkur miklu máli að vera á toppnum þegar deildarkeppninni lauk, út af þessum heimavallarrétti í lokaleiknum.“

Klippa: Adda fyrir stórleikinn: „Við höfum líka mikið af vopnum í okkar búri“

Reiknar með stútfullum Hlíðarenda.

„Býst ekki við neinu öðru, bæði af Völsurum og Blikum sem og hinum almenna áhorfenda sem finnst gaman að horfa á fótbolta. Þetta eru tvö bestu liðin á Íslandi í dag, höfum sannað það margoft í sumar og síðustu ár svo ég vil sjá pakkaða stúku.“

„Það er öðruvísi að undirbúa sig sem leikmaður en þjálfari,“ sagði Adda að endingu en hún spilaði marga svona leiki á ferli sínum sem leikmaður.

Leikur Vals og Breiðabliks hefst klukkan 16:15 á morgun. Bein útsending og upphitun hefst klukkan 15:45 á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×