Fótbolti

Fyrir­liði Real Madrid sleit krossband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dani Carvajal var niðurbrotinn er hann var borinn af velli.
Dani Carvajal var niðurbrotinn er hann var borinn af velli. getty/Alvaro Medranda

Dani Carvajal, fyrirliði Spánar- og Evrópumeistara Real Madrid, spilar ekki meira með á tímabilinu. Hann sleit krossband í hné í sigrinum á Villarreal.

Real Madrid vann 2-0 sigur á Villarreal á Santiago Bernabéu í spænsku úrvalsdeildinni í gær.

Í uppbótartíma meiddist Carvajal og var greinilega mjög þjáður. Strax var óttast að hann væri alvarlega meiddur og sá ótti var staðfestur eftir leik. Krossbandið er slitið, Carvajal þarf að fara í aðgerð og verður frá keppni út tímabilið.

„Alvarleg krossbandameiðsli eru staðfest. Ég þarf að fara í aðgerð og verð frá í nokkra mánuði. Hlakka nú þegar til að byrja endurhæfinguna og ég kem dýrvitlaust til baka,“ skrifaði Carvajal á Instagram gærkvöldi.

Lucas Vásquez mun væntanlega fylla skarð Carvajals en hann er eini eiginlegi hægri bakvörðurinn sem er eftir í leikmannahópi Real Madrid.

Madrídingar eru í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 21 stig, jafn mörg stig og topplið Börsunga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×