Fótbolti

Varði víti frá þremur mis­munandi leik­mönnum í sama leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paulo Gazzaniga ver vítaspyrnu Anders Herrera.
Paulo Gazzaniga ver vítaspyrnu Anders Herrera. getty/Eric Alonso

Markvörðurinn Paulo Gazzaniga var hetja Girona þegar liðið lagði Athletic Bilbao að velli, 2-1, í spænsku úrvalsdeildinni í dag. Hann varði vítaspyrnur frá þremur leikmönnum Athletic.

Alex Berenguer, Ander Herrera og Inaki Williams reyndu sig allir gegn Gazzaniga á vítapunktinum í dag en sá argentínski varði frá þeim öllum.

Hann varði fyrsta vítið frá Berenguer á 28. mínútu. Yaser Asprilla kom Girona svo yfir á 39. mínútu en Oihan Sancet jafnaði tveimur mínútum seinna.

Á 58. mínútu fékk Athletic annað víti. Williams fór á punktinn en Gazzaniga varði. Endurtaka þurfti spyrnuna og þá reyndi Herrera sig gegn Gazzaniga. En hann sá við gamla Manchester United-manninum og varði þriðja vítið sitt í leiknum.

Úrslitin réðust svo á vítapunktinum hinum megin því Cristhian Stuani skoraði sigurmark Girona úr víti þegar níu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 2-1, Girona í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×