Erlent

Trump sendi Pútín kóvid­próf á laun

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump tekur í hönd Pútín á alræmdum fundi þeirra í Helsinki árið 2018. Á sameiginlegum blaðamannafundi sagðist Trump taka orð Pútín fram yfir bandarísku leyniþjónustunnar.
Trump tekur í hönd Pútín á alræmdum fundi þeirra í Helsinki árið 2018. Á sameiginlegum blaðamannafundi sagðist Trump taka orð Pútín fram yfir bandarísku leyniþjónustunnar. Vísir/EPA

Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, sendi Vladímír Pútín, forseta Rússlands, tæki til þess að greina kórónuveirusmit þegar skortur var á þeim í heiminum árið 2020. Pútín bað Trump um að halda sendingunni leyndri.

Þetta kemur fram í „Stríði“, nýrri bók Bobs Woodward, bandaríska blaðamannsins sem varð heimsfrægur fyrir að afhjúpa Watergate-hneyksli Richards Nixon á áttunda áratug síðustu aldar. Bókin er sögð byggja á samtölum Woodward við heimildarmenn sem höfðu beina aðkomu að þeim atvikum sem þeir lýsa, að sögn CNN-fréttastöðvarinnar.

Á meðal þess eru samskipti Trump og Pútín þegar kórónuveiruheimsfaraldurinn var í algleymingi árið 2020. Þá sendi Trump tæki til þess að greina Covid-smit til Pútín til persónulegra nota. Rússneski forsetinn hafi beðið Trump um að segja ekki frá því opinberlega.

„Gerðu það ekki segja neinum að þú sendir mér þetta,“ sagði Pútín við Trump samkvæmt bók Woodard.

„Mér er alveg sama. Allt í fína,“ svaraði Trump.

„Nei, nei. Ég vil ekki að þú segir neinum vegna þess að fólk verður reitt við þig, ekki við mig. Þeim er sama um mig,“ sagði Pútín þá.

Hafa haldið sambandi

Þeir Pútín og Trump eru sagðir hafa haldið sambandi eftir að Trump lét af embætti forseta árið 2021. Þeir hafi rætt saman í síma allt að sjö sinnum. Það hefur Woodward eftir ráðgjafa fyrrverandi forsetans.

Jason Miller, einn aðalráðgjafi Trump, sagði Woodward að hann vissi ekki til þess að þeir Pútín hefðu verið í sambandi eftir að kjörtímabili hans sem forseta lauk. Hann hefði ekki heyrt af því sjálfur.

Yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar svaraði því ekki beint hvort hann hefði vitneskju um möguleg samskipti Pútín og Trump síðustu árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×