Elín Margrét Böðvarsdóttir er stödd í Kaupmannahöf og lýsti deginum í beinni útsendingu á Stöð 2 ásamt því að taka viðtöl við ráðamenn sem héldu inn í konungshöllina.
Dagskráin var þétt í dag. Hún hófst með móttöku forsetahjónanna íslensku, Höllu og Björns Skúlasonar, sem komu siglandi að gömlu tollbryggjunni þar sem Friðrik Danakonungur og Mary Danadrottning voru mætt. Þaðan lá leiðin til Amalíuborgarhallar þar sem Margrét Þórhildur Danadrottning leit óvænt við og skilaði kveðju á Vigdísi Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands.
Sjá einnig: „Eins og við höfum verið að hitta gamla vini”
Þá heimsóttu bæði konungshjónin og forsetahjónin Jónshús og síðan Stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn. Þar skoðuðu þau forn íslensk handtrit. Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra undirritaði viljayfirlýsingu um að stórauka samvinnu beggja ríkjanna og fá fleiri handrit til landsins til rannsókna.
Stjórnmálamenn, bæði danskir og íslenskir, auk konungsfólks fóru að streyma í Kristjánsborgarhöll þegar leið á kvöld. Hér að neðan má sjá myndir af nokkrum gestunum sem mættu í höllina.
Dönsku ráðherrarnir Lars Løkke Rasmussen og Tróels Lund Poulsen ræddu við fréttastofu áður en kvöldverður hófst.
Hvaða þýðingu hafa tengslin milli Íslands og Danmerkur fyrir þig sem utanríkisráðherra?
„Sambandið er sterkt. Við erum jú öll frá Norðurlöndum og gildismat okkar er hið sama. Svo eigum við okkur sameiginlega sögu og eigum afar gott samstarf bæði í Norðurlandaráði og í Evrópusamstarfi og alþjóðamálum. Á síðasta ári styrktum við samband hinna fimm Norðurlanda. Samstarf okkar er því afar gott,“ sagði Lars Løkke.
Tróels Lund Poulsen varnarmálaráðherra Danmerkur ræddi einnig við fréttastofu.
„Við ræddum um græna aðlögun í Danmörku og hvernig við getum þróað samfélög okkar. Þetta hefur jú verið málefni sem forseta Íslands hefur verið mjög umhugað um og Danmörk einnig,“ sagði Tróels Lund.
Gætu Danmörk og Ísland átt nánara samstarf þegar varnarmál eru annars vegar?
„Við gætum átt nánara samstarf, ekki síst á vettvangi Norðurlanda og hvort við gætum ekki skapað betra yfirlit að því er varðar Norður Atlantshafið milli Íslands og Færeyja. Ég tel að þar sé grundvöllur fyrir frekara samstarfi.“