Íslenski boltinn

Jón Þór fram­lengir til þriggja ára

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Þór Hauksson verður áfram við stjórnvölinn hjá ÍA.
Jón Þór Hauksson verður áfram við stjórnvölinn hjá ÍA. vísir/anton

Þjálfari karlaliðs ÍA í fótbolta, Jón Þór Hauksson, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við félagið.

Jón Þór tók við þjálfun ÍA fyrir tímabilið 2022. Liðið féll úr Bestu deildinni um haustið en vann Lengjudeildina í fyrra.

Í sumar hefur svo gengið vel hjá Skagamönnum og þeir eru í 5. sæti Bestu deildarinnar og eiga enn möguleika á að ná Evrópusæti þegar tveimur umferðum er ólokið.

„Ég er stoltur og ánægður með að framlengja minn samning og vera treyst fyrir því mikilvæga starfi sem framundan er hjá ÍA. Ég hlakka til að vinna áfram með öflugu teymi þjálfara, leikmanna, stjórnar og starfsmanna. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka kærlega þann stuðning sem liðið hefur fengið í sumar frá frábærum stuðningsmönnum ÍA sem geta sannarlega skipt sköpum,“ sagði Jón Þór í tilkynningu frá ÍA.

Jón Þór stýrði ÍA einnig undir lok tímabilsins 2017. Hann hefur einnig þjálfað karlalið Vestra og kvennalandsliðið auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari hjá ÍA og Stjörnunni.

Næsti leikur ÍA, sem er jafnframt síðasti heimaleikur liðsins á tímabilinu, er gegn Íslandsmeisturum Víkings laugardaginn 19. október. Í lokaumferðinni viku seinna mæta Skagamenn svo Valsmönnum á Hlíðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×