Fótbolti

Gló­­dís kemst ekki á verð­­launa­há­­tíðina: „Mér finnst þetta bara fá­rán­legt“

Aron Guðmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, er allt annað en ánægður með skipuleggjendur Ballon D'or verðlaunahátíðarinnar.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, er allt annað en ánægður með skipuleggjendur Ballon D'or verðlaunahátíðarinnar. Vísir/Samsett mynd

Þor­steinn Hall­dórs­son, þjálfari ís­lenska kvenna­lands­liðsins í fót­bolta, segir það fá­rán­legt að stærsta verð­launa­há­tíð ársins í fót­bolta­heiminum, þar sem sjálfur gull­boltinn verður af­hentur bestu leik­mönnum heims í karla- og kvenna­flokki, skuli vera haldin í miðjum lands­leikja­glugga kvenna­lands­liða. Gló­dís Perla Viggós­dóttir er fyrsti Ís­lendingurinn sem er til­nefnd til verð­launanna en hún mun ekki geta mætt á há­tíðina þar sem að hún verður stödd í lands­liðs­verk­efni.

Lands­liðs­hópur ís­lenska kvenna­lands­liðsins fyrir tvo æfingar­leiki gegn ólympíu­meisturum Banda­ríkjanna ytra var opin­beraður í dag. Leikir liðanna munu fara fram í Austin Texas og Nas­hvil­le Tennees­se 25. Og 27.októ­ber næst­komandi og gat Þor­steinn Hall­dórs­son, lands­liðs­þjálfari valið úr sínum sterkustu leik­mönnum og gerir að­eins eina breytingu milli lands­liðs­verk­efna.

Í lands­liðs­hópnum er sem fyrr að finna leið­toga liðsins Gló­dísi Perlu Viggós­dóttur, leik­mann og fyrir­liða Bayern Munchen sem átti skínandi tíma­bil á síðasta tíma­bili og var í kjöl­far þess til­nefnd til Ball­on d´or verð­launanna virtu sem veitt eru besta leik­manni í heimi í karla og kvenna­flokki.

„Auð­vitað er þetta bara frá­bært af­rek hjá henni. Þetta er risa­stórt. Hún er einn besti leik­maður heimsins. Til­nefnd sem slík og það er frá­bært. Þetta sýnir í raun og veru hvar hún er stödd sem leik­maður. Það er eftir því tekið hversu góð hún er. Þetta er bara virki­lega flott af­rek. Flott fyrir hana sem leik­mann og sýnir að við erum með leik­mann í þessum gæða­flokki í okkar liði. Það hjálpar okkur að sjálf­sögðu líka. Þetta er stórt og mikið. Vonandi verður bara á­fram­hald á þessu. Að hún haldi á­fram að þróast og þroskast sem leik­maður. Verði enn þá betri en hún er í dag.“

„Mér finnst þetta bara fáránlegt“

Gló­dís er fyrst Ís­lendinga til þess að vera til­nefnd til verð­launanna en mun ekki geta sótt sjálfa verð­launa­há­tíðina í París þann 28.októ­ber næst­komandi því hún fer fram degi eftir seinni leik Ís­lands og Banda­ríkjanna í Nas­hvil­le.

Þá má gera ráð fyrir því að fleiri stór nöfn úr kvenna­boltanum muni ekki geta sótt há­tíðina sem er haldin í miðjum lands­liðs­glugga kvenna­lands­liðanna og munu á þessum dögum undir lok októ­ber fara fram mikil­vægir leikir í um­spili fyrir Evrópu­mót næsta árs. Stað­reynd sem kemur lands­liðs­þjálfara Ís­lands spánskt fyrir sjónir en það er franski miðillinn French Foot­ball sem stendur fyrir Ball­on d´or valinu og nýtur lið­sinnis Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandsins við undir­búning verð­launa­af­hendingarinnar.

„Þetta er náttúru­lega bara galið. Í grunninn er þetta galið. Ef þeir vilja gera konum hátt undir höfði þá þurfa þær að geta mætt á svæðið. Það er al­gjör­lega ljóst. Þú getur ekki sett þetta í mitt lands­leikja­hlé hjá konum því að bestu leik­mennirnir eru að spila með lands­liðum sínum og munu ekki geta mætt nema kannski í ein­hverjum undan­tekningar­til­fellum þar sem að þær eru í um­ræddu landi þar sem að verð­launa­af­hendingin fer fram. Mér finnst þetta bara fá­rán­legt. Ein­faldasta leiðin í þessu væri bara að halda þetta í sitt­hvoru lagi. Að hafa sér stóra verð­launa­af­hendingu fyrir konur og sér fyrir karla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×