Ljóst var þegar Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna gekk á fund Höllu Tómasdóttur forseta Íslands upp úr klukkan sex í gær að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar nyti ekki lengur meirihlut á Alþingi.

„Mér finnst mikilvægast akkúrat á þessum tímapunkti að forsætisráðherra biðjist lausnar. Ég tel að það liggi algerlega í hlutarins eðli að forsætisráðherra sem hefur gefist upp á verkefninu, treystir sér ekki til að ljúka því, eigi að biðjast lausnar,“ sagði Svandís á leið til fundar við forseta seinnipartinn í gær.
Bjarni greindi síðan frá því í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi að það ætlaði hann einmitt að gera. Reiknað er með að hann gangi á fund forseta Íslands í þeim erindagjörðum síðar í dag.
Svandís telur ekki sjálfgefið að Bjarni leiði síðan starfsstjórn fram að kosningum sem fram fari hinn 30. nóvember eins og hann hefur lýst vilja sínum til. Hún geti vel séð Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknarflokksins fyrir sér í sæti forsætisráðherra í starfsstjórn með Vinstri grænum.

„Mér finnst það alveg koma til greina. Mér finnst að við eigum ekki að taka slíka möguleika út af borðinu. - Þegar forsætisráðherra Bjarni Benediktsson í raun og veru slítur stjórnarsamstarfinu, og þar með samstarfi við flokkana, Framsókn og okkur í VG er það þannig að hann er ekki með öll spil á hendi eftir það," sagði Svandís í gær.
Þetta skýrist allt þegar líða tekur á daginn. Forseti Íslands metur nú stöðu mála eftir að hafa rætt við oddvita allra flokka á Alþingi í gær. Í morgun kallaði hún síðan Birgi Ármannsson forseta Alþingis á sinn fund.

„Forseti var auðvitað bara að afla sér upplýsinga um þingstörfin og hvers væri að vænta varðandi þau á næstunni. Það má auðvitað segja að við erum í ákveðnu óvissutímabili þannig að þingstörfin munu auðvitað taka mið af því,“ segir forseti Alþingis.
Beiðni Bjarna um lausn fyrir hann og ráðuneyti hans feli ein og sér ekki í sér boðun um þingrof. Það væri sjálfstæð ákvörðun og þar með kjördagur. Birgir telur eðlilegt við þessar aðstæður að Bjarna verði falið að leiða starfsstjórn.
„Þegar forsætisráðherra hefur beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt er venjan sú að forseti biður hann að sitja áfram í starfsstjórn þangað til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Þannig að það hefur í raun og veru ekki önnur áhrif en það og hefur ekki áhrif á þingstörfin sem slík,” sagði Birgir Ármannsson.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá viðtal við Svandísi Svavarsdóttur klukkan 18:15 í gærkvöldi í heild sinni: