Lífið

Liam Payne úr One Direction látinn

Atli Ísleifsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Liam Payne.
Liam Payne. EPA

Breski tónlistarmaðurinn Liam Payne úr sveitinni One Direction er látinn. Hann var 31 árs.

Þetta kemur fram í argentínskum fjölmiðlum í dag. Hann er sagður hafa fallið fram af svölum á þriðju hæð hótels í Buenos Aires. CNN greinir einnig frá andláti Payne nú í kvöld. Ekki hafa fengist upplýsingar um aðdragandann að andláti hans.

Liam Payne var liðsmaður strákasveitarinnar One Direction ásamt þeim Zayn Malik, Niall Horan, Harry Styles og Louis Tomlinson. Hljómsveitin var sett saman í sjónvarpsþáttunum X-factor árið 2010 og var fljót að öðlast heimsfrægð. Malik sagði skilið við hljómsveitina snemma árs árið 2015 en meðlimirnir fjórir sem eftir voru störfuðu áfram saman, þar til þeir héldu hver í sína áttina síðar það sama ár.

Payne lét reyna á sólóferil eftir að One Direction lagði upp laupana og naut nokkurra vinsælda upp á eigin spýtur. Fyrsta lag hans, Strip That Down, átti talsverðri velgengni að fagna þegar það kom út árið 2017. 

Payne ræddi einnig opinskátt um alkóhólisma sem hann sagðist hafa glímt við allt frá því að One Direction var á hátindi frægðar sinnar. Hann fór í áfengismeðferð í fyrra eftir að hafa veitt umdeilt viðtal um samskipti sín við áðurnefndan Malik, þegar þeir voru enn saman í hljómsveitinni.

Fréttin verður uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×