Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Þar segir að María Reyndal hafi verið með afkastamestu höfundum okkar á liðnum árum og skrifað handrit og leikstýrt fyrir leikhús, útvarp og sjónvarp. Hún skrifaði til dæmis verðlaunaleikritin Sóley Rós ræstitæknir, Er ég mamma mín og Með Guð í vasanum, leikstýrði og skrifaði útvarpsleikritið og síðan sjónvarpsmyndina Mannasiði og var einn leikstjóra sjónvarpsþáttaraðarinnar Verbúðin.
Jafnframt var hún meðal handritshöfunda grín- og gamanþáttanna Stelpurnar, Ástríður og Ríkið. Nú tekur María í annað sinn þátt í að skrifa skaupið og segist spennt fyrir verkefninu.
„Það er heiður að fá að tala beint við þjóðina í þessum vinsælasta sjónvarpsþætti landsmanna. Við erum búin að fara í gegnum margt á árinu og þarna höfum við tækifæri til að sameinast og spegla okkur sjálf og gleðjast saman. Skaupið á að vera fyrir alla aldurshópa, þverpólitískt og tikka í öll box sem er að sjálfsögðu ómögulegt. Og nú var náttúrlega allt að fara af stað í pólitíkinni sem við hlökkum til að takast á við í handritsvinnunni, hópurinn þarf heldur betur að vera á tánum þessa dagana,“ segir María og brosir. „Sem betur fer er ég að vinna með framúrskarandi fólki og við erum öll að vanda okkur í vinnunni og hlæjum mikið,“ bætir María við og skellihlær.
Fjölbreytt skrifteymi
Skrifteymið er afar fjölbreytt og vandlega samsett af efnilegu hæfileikafólki í bland við annálaða reynslubolta í handritsskrifum, uppistandi og annars konar framleiðslu á gríni.
Friðgeir Einarsson er leikari, rithöfundur og leikskáld sem hefur bæði einn síns liðs og með hinum annálaða leikhópi Kriðpleir skrifað og leikið í fjölda verka fyrir leiksvið og Útvarpsleikhúsið. Hann er að taka þátt í gerð Skaupsins í annað sinn.
Hugleikur Dagsson skopmyndateiknari er Íslendingum að góðu kunnur en hann er vel þekktur fyrir uppistand og handritaskrif. Hugleikur er nú í sjötta sinn í handritsteymi skaupsins.
Katla Margrét Þorgeirsdóttir er ein ástsælasta gamanleikkona landsins. Hún hefur komið víða við og er nú í handritsteymi skaupsins í sjöunda skipti. Líkt og María var hún einn handritshöfunda Stelpnanna, gamanseríunnar Ástríður og sketsaseríunnar Ríkið.
Salvör Gullbrá útskrifaðist frá Sviðslistabraut LHÍ 2019 og hefur síðan komið víða við í leikstjórn, handritaskrifum og uppistandi. Þetta er í fyrsta sinn sem hún tekur þátt í að skrifa skaupið margfræga.
Sveinn Ólafur Gunnarsson leikari og handritshöfundur hefur getið sér gott orð í leikhúsi og kvikmyndum. Hann hefur nú í auknum mæli snúið sér að handritaskrifum. Hann skrifaði m.a. handrit sýningarinnar Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar ásamt Ólafi Ásgeirssyni en þeir félagar eru báðir í handritsteymi skaupsins í ár. Ólafur er einnig leikari en hann hefur kennt spunatækni og starfað með Improv Ísland spunahópnum í mörg ár.
Ingimar Guðbjartsson framleiðir
Framleiðandi skaupsins í ár er Ingimar Guðbjartsson en hann hefur meðal annars komið að framleiðslu kvikmyndanna Snerting og Northern Comfort auk annarra verka. Hann var framkvæmdarstjóri við tökur á Áramótaskaupinu 2018.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarpsins, er hæstánægður með hópinn sem gerir skaupið í ár. „Við finnum auðvitað fyrir pressunni sem fylgir því að búa til grín sem nánast allir landsmenn bíða spenntir eftir um hver áramót. Þess vegna leggjum við áherslu á að kalla árlega til okkar allra frambærilegasta fólkið á grín- og leiksviðinu, hæfileikafólk með eins breiðan og ólíkan bakgrunn og kostur er. Við erum þess fullviss að það hafi enn og aftur tekist í ár,“ segir Skarphéðinn.
Hópurinn er nú önnum kafinn við skriftir en tökur hefjast í nóvember og þá klipping og eftirvinnsla svo allt verði klappað og klárt þegar þjóðin sest fyrir framan sjónvarpið á gamlárskvöld.