Innlent

Hús­næði Stuðla ráði ekki við málaflokkinn og úr­bætur gengið hægt

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ólöf Farestveit, forstjóri Barna- og foreldrastofu, og Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra ræddu málefni Stuðla þar sem piltur lést í vikunni.
Ólöf Farestveit, forstjóri Barna- og foreldrastofu, og Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra ræddu málefni Stuðla þar sem piltur lést í vikunni.

Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu segir húsnæði Stuðla ekki rýma þá hópa sem þar dvelji. Barnamálaráðherra segir myglu tvívegis hafa komið í veg fyrir úrbætur á meðferðaheimilum en það horfi til betri vegar. Hann segir að fjárfesta þurfi miklu meira í börnum.

Ekkert fæst gefið upp um eldsupptök í bruna á meðferðarheimilinu Stuðlum, þar sem sautján ára piltur lést í gær. Til stendur að fara yfir upptökur úr öryggismyndavélum en enginn hefur þó verið handtekinn.

Rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi en eldurinn kom upp í neyðarvistunarálmu þar sem pilturinn hafði dvalið um skamma stund. Starfsmaður sem fluttur var á bráðamóttöku með reykeitrun er ekki í lífshættu. Börn á Stuðlum sem flytja þurfti úr húsi eftir brunann fengu strax inn á Vogi þar sem náðist að koma upp aðstöðu fyrir þau.

Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra og Ólöf Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu ræddu við Sindra Sindrason fréttaþul í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Húsnæði Stuðla ráði ekki við málaflokkana

Starfsmenn hafa reglulega sagt að það sé of mikið álag, málin séu of þung og það sé í raun ekki verið að gera nóg í þessum málum. Hvað segir þú við því, Ólöf?

„Vissulega eru málin mjög þung og það eru ólík mál sem eru að berast til okkar. Þá erum við sérstaklega að tala um neyðarvistun þar sem við erum að fást við börn með hegðunarvanda, svo erum við börn með vímuefnavanda og svo erum við að takast á við það að þurfa að vista börn sem eru í gæsluvarðhaldi, að afplána dóma eða jafnvel í síbrotagæslu.

Þetta gerir að verkum að við erum með mjög fjölþættan vanda og húsnæðið rýmar ekki og er ekki gert fyrir þessa málaflokka,“ sagði Ólöf Farestveit.

Vandinn hafi vaxið jafnt og þétt

Húsnæði Stuðla áhyggjuefni og hentar ekki þessari starfsemi. Það er búið að tala um þetta í nokkuð langan tíma, hvers vegna er ekki eitthvað gert, Ásmundur?

„Það sem lýtur að börnum í gæsluvarðhaldi er nýlega komið til okkar. Við höfum líka verið einstaklega óheppin varðandi húsnæði þegar kemur að meðferðarheimilum síðasta hálfa árið. 

Það þurfti að loka meðferðarheimili á Suðurlandi vegna myglu, við ætluðum að leigja annað húsnæði í samstarfi við Barna- og fjölskyldustofu til þess að sinna því og það var frágengið. Þegar það var farið í framkvæmdir þar var það með sama hætti, mygla og raki. Þar er Barna- og fjölskyldustofa búin að vera með mannskap sem hefur ekki getað sinnt hlutverki sínu.

Það lítur þannig út að við séum að festa húsnæði þar og hægt sé að stíga þar inn. Síðan er húsnæði í framkvæmdum í Skálatúni í Mosfellsbæ þar sem ætlunin er að rísi þjónustuþorp fyrir börn sem mun opna á næstu vikum. 

Hlutirnir eru að hreyfast en ég er algjörlega sammála að við þurfum að hreyfa okkur hraðar af því vandinn vex hraðar og hann hefur verið að gera það jafnt og þétt síðustu misseri en við verðum að ná að koma þessum úrræðum í gagnið og síðan vinna að endurbótum á Stuðlum,“ sagði Ásmundur Einar.

Ábyrgðarleysi að sprengja stjórnina á þessum tímapunkti

Talandi einmitt um þetta, að vandinn sé að vaxa. Foreldrar barna með geðraskanir, foreldrar langveikra barna og fatlaðra barna hafa oft talað um að það sé oft nægur peningur fyrir alls konar hliðarverkefni en aldrei þessa hópa. Hvað segið þið við því?

„Ég skal taka þennan bolta vegna þess að þetta er af pólitískum meiði,“ sagði Ásmundur og hélt svo áfram:

„Við erum auðvitað búin að vera að vinna í því, það er milljarða fjárfesting í nýjum lögum um farsæld barna þar sem við erum að stíga fyrr inn. Við þurfum að fjárfesta miklu meira í börnum en við höfum gert. Við þurfum að gera það líka þegar kemur að þyngri endanum.

Ég hef átt gríðarlega gott samstarf við fjármálaráðuneytið, sérstaklega síðustu mánuði. Það sem lýtur að ofbeldi barna og úrræðum í málefnum barna var í undirbúningi, fjármagn og aðgerðir, þegar þessi ríkisstjórn sprakk. Þess vegna fannst mér mikið ábyrgðarleysi að sprengja ríkisstjórn á þessum tímapunkti vegna þess að það er svo margt í pípunum.“

Ólíkir þættir hafi áhrif á versnandi líðan barna í viðkvæmri stöðu

Ólöf, þú ert búin að vera í þessum geira í þrjátíu ár. Finnst þér vandamálin vera að stækka?

„Það sem maður sér í samfélaginu er að sjálfræðisaldur var hækkaður frá sextán upp í átján ár sem skiptir miklu máli. 

En það eru líka svo margir ólíkir þættir sem koma inn í hvers vegna börnum í þessari mjög viðkvæmu stöðu líður kannski verr. Það eru mjög margir þættir sem við erum svo sannarlega að skoða.

Ég er full bjartsýni að farsældarlöggjöfin, sem Ásmundur kom inn á, mun skila okkur miklu betri málum hérna seinna meir.“


Tengdar fréttir

Enginn handtekinn í tengslum við brunann á Stuðlum

Sautján ára piltur sem sem lést í bruna á meðferðarheimilinu Stuðlum í gær var ekki búinn að vera lengi inni á stofnuninni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið. Starfsmaður sem fluttur var með reykeitrun á bráðamóttöku er ekki í lífshættu.

„Af hverju á ekki að bjarga börnunum?“

Drengur sem hefur verið lagður sextán sinnum inn á Stuðla á einu ári segir betrun þeirra sem fara þangað inn litla sem enga. Faðir hans kallar úrræðið geymslu fyrir börn í vanda þar til þau verða átján ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×