Brasilíumaðurinn Vinicius Tobias lék einn leik með Real Madrid á síðasta tímabili. Hann leikur nú með Shakhtar Donetsk í Úkraínu.
Þann 8. október eignaðist fyrrverandi kærasta Tobias, Ingrid Lima, dóttur þeirra, Maite. Til að fagna fæðingu hennar lét Tobias flúra nafn hennar á sig.
Hann hefði betur látið það ógert því Lima greindi frá því á Instagram að Tobias væri ekkert pabbi Maite. Faðernispróf leiddi það í ljós. Pabbi Maite er maður sem Lima átti í stuttu sambandi við eftir að hún hætti með Tobias.
Brassinn tvítugi var í tvö ár á láni hjá Real Madrid en lék aðeins einn bikarleik með aðalliði félagsins. Tobias fór til Real Madrid eftir að stríðið í Úkraínu braust út en erlendum leikmönnum var þá frjálst að fara á láni til annarra liða.