Innlent

Vilja skýrari svör um af­greiðslu fjár­laga og þing­slit

Kjartan Kjartansson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/Arnar

Formaður Viðreisnar segir að starfsstjórnin verði að leggja fram skýrari svör um afgreiðslu fjárlaga og þingslit en þau sem komu fram á fundi formanna flokkanna á Alþingi í dag. Ríkur vilji sé hjá flokkunum að klára þau mál sem eðlilegt sé að klára.

Formenn flokkanna á Alþingi hittust á fundi í hádeginu þar sem leggja átti drög að því hvernig gengið yrði frá málum áður en þingi verður slitið í aðdraganda þingkosninga í lok nóvember.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að farið hafi verið yfir nokkur mál á fundinum en henni hafi fundist svör starfandi fjármála- og forsætisráðherra nokkuð óljós um áherslur þeirra.

„Við þurfum að fá betri útskýringar á ákveðnum hlutum sem voru settir þarna fram,“ segir hún og nefnir atriði úr fjáraukalögum og mál sem varða tekjuhlið ríkissjóðs. Þá þurfi frekari upplýsingar um framkvæmdir eins og Ölfusárbrú.

Á meðan línur eru ekki orðnar skýrari segir Þorgerður að formennirnir hafi rætt um að tilgangslaust væri fyrir fjárlaganefnd Alþingis að funda. Ríkur vilji sé hjá allflestum flokkum að afgreiða þau mál sem eðlilegt sé að kára.

Þorgerður segir að sér hafi komið á óvart að fundurinn hafi ekki verið betur undirbúinn en að hún sé einnig þakklát fyrir að hann hafi verið haldinn og að formennirnir hafi getað rætt saman opinskátt.

„Við þurfum að fá betri svör við okkar spurningum og að er alveg sjálfsagt að gefa ráðherrum þann frest að vinna betur svörin inn í þær spurningar sem við settum fram á fundinum,“ segir Þorgerður.

Ekki náðist í Sigurð Inga Jóhannsson, starfandi fjármálaráðherra, við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×