Skoðun

ESB: Engar á­hyggjur

Kjartan Valgarðsson skrifar

Samfylkingin hefur frá stofnun verið fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið og upptöku evru.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sótti um inngöngu í ESB.

Össur Skarphéðinsson leiddi viðræður okkar við ESB.

Samfylkingin er enn sama sinnis. Það er engin ástæða til að draga í efa.

Hitt er annað mál hvað Samfylkingin leggur áherslu á í kosningum. Samfylkingin hefur verið að færa sig nær verkalýðshreyfingunni undir forystu Kristrúnar Frostadóttur og nú má segja að sé gott talsamband og samstarf milli flokks og hreyfingar. Verkalýðshreyfingin berst á tvennum vígstöðvum: á götunni/við samningaborðið og í þinginu.

Við höfum satt best að segja ekki verið nógu flink í kosningum fram að þessu, við höfum sett fram of mörg stefnumál, eiginlega öll, skilaboðin verið óljós (hver man ekki eftir „Líf í lit“) og samkvæmt rannsóknum þá hefur almenningur átt erfitt með að átta sig á fyrir hvað við stöndum.

Þetta er breytt. Nú leggjum við áherslu á kjör og lífsaðstæður venjulegt vinnandi fólks með skýrri stefnumökum og strategíu sem dregur fram trausta efnahagsstjórn sem er grunnurinn fyrir því að við getum komið umbótum í heilbrigðiskerfinu, samgöngum (svo fólk komist í vinnu og til læknis) og húsnæðismálum í framkvæmd.

Fólk sem hefur áhyggjur af næstu mánaðamótum er ekki upptekið af því hvort við séum á leiðinni í ESB eða ekki. Áhugafólk um akademískar samræður í 101 og 107 telur það hins vegar skipta öllu.

Hvað bíður þá okkar Evrópusinna?

Ef 32 þingmenn eða fleiri koma upp úr kjörkössunum 30. nóbember sem eru hlyntir inngöngu Íslans í Evrópusambandið þá er líklegt að eftirfarandi þingsályktunartillaga verði lögð fram:

Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald og lok viðræðna Íslands við Evrópusambandið.“

Samningsdrögin verða síðan lögð fyrir þjóðina í annari þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég vona verði samþykkt.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×