Erlent

Telur rúss­nesk lög um er­lenda út­sendara stríða gegn mann­réttindum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vladímír Pútín hefur hert tök sín á rússnesku samfélagi á undanförnum árum, meðal annars með því að skilgreina félagasamtök og fjölmiðla sem útsendara erlendra ríkja.
Vladímír Pútín hefur hert tök sín á rússnesku samfélagi á undanförnum árum, meðal annars með því að skilgreina félagasamtök og fjölmiðla sem útsendara erlendra ríkja. Vísir/EPA

Mannréttindadómstóll Evrópu segir að rússnesk lög sem þvinga félagasamtök og fjölmiðla til þess að skrá sig sem útsendara erlendra ríkja brot gegn tjáningar- og samkomufrelsi. Markmið þeirra virðist vera að ógna og refsa andófsröddum.

Fleiri en hundrað félagasamtök, fjölmiðlafyrirtæki og einstaklingar höfðuðu málið gegn rússneska ríkinu vegna laganna um erlendra útsendara sem voru sett árið 2012. Ríkisstjórn Vladímírs Pútín forseta hefur beitt lögunum til þess að þagga niður í gagnrýnisröddum heima fyrir.

Í hópi þeirra sem höfðuðu málið voru International Memorial, mannréttindasamtök sem voru stofnuð til þess að rannsaka mannréttindabrot í tíð Sovétríkjanna, blaðamenn, aðgerðasinnar og fræðimenn sem rússnesk stjórnvöld hafa skilgreint sem útsendara erlendra ríkja.

Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í dag að rússnesku lögin væru andstæð ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og samkomufrelsi í tilfelli allra þeirra sem stóðu að málsókninni og gegn ákvæðum hans um friðhelgi einkalífs einstaklinganna.

Lögin, eins og þeim sé beitt, setji smánarblett á þeim sem fyrir þeim verða, þau séu misvísandi og þeim sé beitt á of almennan og ófyrirsjáanlegan hátt, að mati dómstólsins.

„Þetta leiddi dómstólinn að þeirri niðurstöðu að tilgangur laganna væri að refsa og ógna frekar en að taka á meinti þörf fyrir gegnsæi eða lögmætum áhyggjum af þjóðaröryggi,“ sagði dómstóllinn.

Kælingaráhrif á opinbera umræðu og versnað með tímanum

Verulega er þrengt að þeim sem þurfa að skilgreina sig sem útsendara erlendra ríkja á grundvelli laganna. Einstaklingar og samtök þurfa að merkja allt efni sem frá þeim kemur með þessari stöðu þeirra. Þeim er meinað að taka þátt í kosningum, möguleikar þeirra á að stunda kennslu takmarkaðir, þeim bannað að beina boðskap sínum að ungu fólki og að taka við auglýsingatekjum frá einkaaðilum.

Þá gerði dómstóllinn athugasemd við þeir sem þurfa að beygja sig undir lögin geti þurft að sæta gerræðislegum sektum og að lögaðilar séu jafnvel leystir upp.

„Slíkar takmarkanir höfðu kælingaráhrif á opinbera umræðu og þátttöku borgaranna. Þær sköpuðu andrúmsloft grunsemda og vantrausts gagngvart óháðum röddum og gráfu undan grundvelli lýðræðislegs þjóðfélags,“ sagði dómstóllinn.

Lögin hefðu ennfremur orðið enn harðneskjulegri með tímanum. Mun fleiri félagasamtök, fjölmiðlar og einstaklingar verði nú fyrir áhrifum af lögunum sem dómstóllinn telur að hafi færst enn lengra frá gildum mannréttindasáttmálans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×