Fótbolti

Albert frá í mánuð og missir af lands­leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson hafði byrjað mjög vel með liði Fiorentina.
Albert Guðmundsson hafði byrjað mjög vel með liði Fiorentina. Getty/Giuseppe Maffia

Albert Guðmundsson mun líklegast ekki snúa aftur í íslenska landsliðið í nóvember þar sem meiðsli hans um helgina munu halda honum frá keppni næstu vikurnar.

Albert meiddist snemma leiks í 6-0 sigri á Lecce í Seríu A um síðustu helgi. Hann fór af velli strax á níundu mínútu leiksins.

Það þurfti að bíða í nokkra daga til að bólgan hjaðnaði þannig að hægt væri að skoða almennilega hvað hefði gefst fyrir íslenska framherjann.

Fiorentina hefur nú staðfest það að hann tognaði það illa í vöðfestingu á hægra læri að hann þarf um mánuð til að ná sér góðum. Albert hefur þegar hafið endurhæfingu en meiðsli eins og þessi þýða jafnan það að leikmaður er frá í fjórar til sex vikur.

Albert kom til Fiorentina í haust og hefur byrjað mjög vel með þrjú mörk í fyrstu fimm leikjum sínum.

Hann hefur ekki spilað með íslenska landsliðinu síðan í mars en eftir að hann var sýknaður af nauðgun þá mátti velja hann á ný í landsliðið.

Albert kom þó ekki inn í síðasta verkefni og verður nú væntanlega ekki heldur með þegar Ísland mætir Svartfjallalandi og Wales 16. og 19. nóvember næstkomandi. Albert missir líka af mörgum leikjum Fiorentina á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×