Fótbolti

„Próf­raun fyrir okkur að mæta þeim allra bestu“

Aron Guðmundsson skrifar
Glódís Perla í leik með íslenska kvennalandsliðinu
Glódís Perla í leik með íslenska kvennalandsliðinu Vísir/Getty

Gló­dís Perla Viggós­dóttir, lands­liðs­fyrir­liði Ís­lands í fót­bolta, segir leikina gegn stærstu liðum í heimi vera þá leiki sem ís­lenska liðið getur lært hvað mest af. Ís­land heim­sækir ríkjandi Ólympíu­meistara Banda­ríkjanna í kvöld.

„Risastórt verkefni fyrir okkur,“ segir landsliðsfyrirliðinn Glódís í samtali við KSÍ TV. „Fín prófraun fyrir okkur að mæta þeim allra bestu. Þær koma inn í þennan leik sem besta lið í heimi og það er verðugt verkefni fyrir okkur að sjá hvernig við getum leyst það. Hvað við þurfum svo að bæta enn meira til að geta verið á sama stað og þær.“

Fyrri leikur liðanna fer fram í Austin í Texas skömmu fyrir miðnætti í kvöld að íslenskum tíma en liðin mætast svo aftur nokkrum dögum síðar í Nashville, Tennessee. Leikir gegn þetta stórum andstæðingi getur gefið liðinu mikið. 

„Jú klárlega. Þetta eru leikirnir sem við getum lært mest af sem lið og gaman að sjá hvar við stöndum miðað við þessi bestu lið í heimi. Við höfum verið að fá flotta leiki, bæði í Þjóðadeildinni sem og í æfingarleikjum, upp á síðkastið. Auðvitað förum við inn í alla þessa leiki með það fyrir augum að reyna vinna þá. Það er gaman að fá tækifæri til að spila á móti þessum sterku þjóðum. Fá aðeins að atast í þeim.“

Árið 2024 hefur verið mjög gjöfullt fyrir íslenska kvennalandsliðið og árið 2025 er spennandi í meira lagi þar sem að liðið tekur meðal annars þátt í A-deild Þjóðadeildar UEFA og svo er komið að næsta stórmóti næsta sumar í Sviss. Sjálft Evrópumótið í knattspyrnu. Aðspurð hvernig yfirstandandi verkefni nýtist íslenska liðinu upp á framhaldið hafði Glódís þetta að segja: 

„Við tökum bara eitt verkefni fyrir í einu. Það er mikið sem á eftir að gerast þar til að við förum á EM. Framundan eru leikir í mikilvægri Þjóðadeild sem spilast eftir áramót og fyrir EM. Þar þurfum við á góðum úrslitum að halda. Það skiptir máli upp á næstu undankeppni. Við verðum bara að fara í hvert verkefni fyrir sig, nýta það sem best og reyna halda áfram að bæta okkur. Verða betri í hverju einasta verkefni. Þannig held ég að við undirbúum okkur sem best fyrir EM.“

Eins og áður hefur verið sagt frá er Glódís tilnefnd til Ballon d'or verðlaunanna virtu.

„Auðvitað er það gríðarlega mikill heiður. Gaman að vera tilnefnd til svona stórra verðlauna. En ég hef alltaf sagt það að fótbolti er liðsíþrótt. Ég er bara gríðarlega þakklát fyrir þessi tvö umhverfi sem ég er í. Alla leikmennina sem ég æfi og spila með.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×