Erlent

Neitar ekki liðs­styrk frá Norður-Kóreu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vladimir Pútín og Xi Jinping, forseti Kína, bergja á drykk í móttöku í tengslum við BRICS-ráðstefnuna.
Vladimir Pútín og Xi Jinping, forseti Kína, bergja á drykk í móttöku í tengslum við BRICS-ráðstefnuna. AP/Alexander Zemlianichenko

Vladimir Pútín Rússlandsforseti neitaði því ekki á blaðamannafundi í gær að stjórnvöld í Norður-Kóreu hefðu sent um 3.000 hermenn til Rússlands.

Boðað var til blaðamannafundarins við lok ráðstefnu BRICS-ríkjanna í Kazan en Pútín notaði tækifærið til að saka Vesturlönd um stigmögnun í Úkraínu og sagði þau lifa í blekkingum ef þau teldu að þau gætu komið því í kring að Rússland tapaði stríðinu.

Yfirvöld í Bandaríkjunum segjast hafa undir höndum sannanir fyrir því að Norður-Kórea hafi sent hermennina til Rússlands, mögulega til að taka þátt í átökunum í Úkraínu. Þegar Pútín var spurður út í gervihnattamyndi sem eru sagðar sýna flutning herliðsins neitaði hann ekki fregnunum.

„Myndir eru alvarlegur hlutur. Ef það eru myndir, þá sýna þær eitthvað,“ sagði hann.

Hann ítrekaði ásökun sína um að Vesturlönd hefðu staðið fyrir stigmögnun í Úkraínu og sagði herforingja og leiðbeinendur á vegum Atlantshafsbandalagsins hafa tekið beinan þátt í átökunum.

Samkvæmt yfirvöldum vestanhafs og í Suður-Kóreu eru hermenn Norður-Kóreu þegar komnir til Úkraínu en ef þeir taka þátt í bardögum þar er um að ræða dýrmætan liðsauka fyrir Rússa og slæmar fréttir fyrir Úkraínumenn.

Pútín sagði einnig á fundinum að öfl sem væru vön því að stjórna öllu og öllum væru að hindra framgang réttlætari skipan heimsmála og sakaði bandamenn Úkraínu um grímulausar tilraunir til að knésetja Rússland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×