Fótbolti

Arnór og Birkir fengu kveðju frá Svíþjóð: „Takk fyrir allt“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Smárason og Birkir Már Sævarsson léku með Hammarby við afar góðan orðstír.
Arnór Smárason og Birkir Már Sævarsson léku með Hammarby við afar góðan orðstír. Samsett/Getty

Sænska knattspyrnufélagið Hammarby birtir í dag myndskeið til heiðurs þeim Birki Má Sævarssyni og Arnóri Smárasyni, vegna tímamótanna í þeirra lífi á morgun.

Birkir og Arnór léku báðir með Hammarby á sínum tíma, við afar góðan orðstír, og félagið hefur síður en svo gleymt þeim.

Nú þegar fram undan er kveðjuleikur þeirra beggja, þegar Valur og ÍA mætast í lokaumferð Bestu deildarinnar á morgun, sendir Hammarby þeim kveðju og segir: „Gangi ykkur allt í haginn með það sem nú tekur við, Arnór og Birkir, og takk kærlega fyrir allt sem þið hafið gert fyrir Hammarby!“

Eins og fram kom í viðtali við Birki á Vísi í dag þá mun hann eftir kveðjuleikinn fyrir Val á morgun flytja aftur í gamla húsið sitt í Stokkhólmi, frá því þegar hann lék með Hammarby, en fjölskylda hans flutti þangað í desember í fyrra. Og Birkir er í atvinnuleit svo það er aldrei að vita nema að hans gamla félag hafi upp á eitthvað að bjóða.

Birkir, sem verður fertugur í næsta mánuði, lauk tíu ára atvinnumannsferli sínum með því að spila í þrjú ár fyrir Hammarby, út tímabilið 2017, áður en hann sneri aftur heim á Hlíðarenda skömmu fyrir HM í Rússlandi 2018.

Þeir Birkir og Arnór voru liðsfélagar hjá Hammarby í tvö ár því Arnór lék með liðinu á árunum 2016-2018.

Arnór, sem er 36 ára, átti svo eftir að leika með Lilleström í Noregi áður en hann kom til Íslands fyrir sumarið 2021 og varð aftur liðsfélagi Birkis hjá Val. Arnór færði sig svo heim á Skagann og lýkur ferlinum sem leikmaður ÍA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×