Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég er A týpan á virkum dögum því ég og maðurinn minn elskum að fara í ræktina fyrir vinnu ef við höfum tök á, svo klukkan á okkar heimili er ýmist stillt á 5.45 eða 6.45 á morgnana, eftir því hvenær fyrstu fundir eða námskeið dagsins hjá mér hefjast.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Fyrsta verk er án gríns að fá mér lýsi og tékka á Vísi. Ég elska fréttir og verð að byrja daginn á að kanna hvað er um að vera í samfélaginu. Svo er það koffínlaus kaffibolli áður en ég gríp íþróttatöskuna og held út í daginn.
Hvaða tímabil í þínu lífi myndir þú segja að hafi verið skrýtnasta tískutímabilið þitt?
Fermingarárið mitt, 1986, alveg klárlega. Þarf ekki einu sinni að hugsa mig um. Ég fermdist þarna um vorið, á hápunkti 80’s tískunnar, í hvítum kjólfötum, appelsínugulri satínskyrtu, með hvítt satínbindi og í hvítum mokkasínum, ég legg ekki meira á ykkur.
Þetta dress verður aldrei toppað og ég fer alltaf að hlæja þegar ég hugsa um þetta tímabil. Buxurnar voru þar að auki í sniðinu eins og reiðbuxur. Allt við þessa tísku var bara mjög skrítið, en þetta var augljóslega það allra flottasta á þessum tíma.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég starfa við leiðtogaþjálfun og námskeiðahald og er á kafi í alls kyns skemmtilegum verkefnum með fyrirtækjum og stofnunum út um allt land, meðal annars í stórum menningarvegferðarverkefnum þar sem við erum að byggja upp hvetjandi árangursmenningu innan viðkomandi vinnustaðar.
Þetta eru ótrúlega gefandi verkefni og maður finnur hvað bæði starfsfólk og stjórnendur eru peppuð í þessari vinnu. Það er líka mikið af námskeiðum og vinnustofum í gangi núna, með fyrirtækjum sem vilja valdefla fólkið sitt, bæta samskipti og efla liðsheild og árangur.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Vinnudagarnir mínir eru frekar óreglulegir og út um allt, sem er fyrirkomulag sem hentar mér vel. Ég nota dagbókina í Outlook til að tryggja að ég sé á réttum stað á réttum tíma. Mottóið mitt er „Ef það er ekki í Outlook, þá er það ekki til”.
Ég lenti samt í því um daginn að þríbóka mig sama daginn, svo það er nú allt hægt þó maður sé að nota öll tól og tæki. En það leystist farsællega sem betur fer.
Ég er með mjög marga bolta á lofti og held utan um verkefnin mín í Trello. Svo nota ég Planner með mörgum af mínum viðskiptavinum til að halda utan um þræðina í verkefnunum á hverjum stað. Ég vil hafa gott skipulag á hlutunum, annars fer allt í steik og þá er voðinn vís.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Það fer svolítið eftir því hvað er í gangi. Ef ég er bara heima og þarf að vakna snemma í ræktina daginn eftir finnst mér gott að fara að sofa rúmlega tíu. Svo erum við stundum að þvælast eitthvað úti á kvöldin eða gleymum okkur yfir Netflix og þá fer ég seinna í ból.
Ég virka best ef ég næ átta tíma svefni, svo það er reglan sem ég vinn með, en klárlega með undantekningum af og til.“