Fótbolti

Mbappé fagnaði sigri en PSG neitar að gefast upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé segist eiga inni 8,2 milljarða hjá Paris Saint Germain. Það er engin smá upphæð.
Kylian Mbappé segist eiga inni 8,2 milljarða hjá Paris Saint Germain. Það er engin smá upphæð. Getty/ Lionel Hahn/

Launadeila Kylian Mbappé og Paris Saint Germain endar fyrir frönskum dómstólum eftir að leikmannasamtök frönsku deildarinnar dæmdu franska framherjanum í vil. Félagið gefur sig ekki.

Mbappé sakar PSG um að hafa hætt að greiða honum laun eftir að hann tilkynnti þeim að hann myndi yfirgefa félagið á frjálsri sölu.

Franski fjölmiðlar hafa það eftir heimildum úr herbúðum Mbappé að félagið skuldi honum 55 milljónir evra eða 8,2 milljarða króna. Þetta eru bæði laun fyrir síðustu mánuði tímabilsins sem og bónusgreiðslur sem voru tilgreindar í samningnum.

Forráðamenn PSG halda því fram að Mbappé hafi löglega bundið enda á samninginn sinn þegar hann tilkynnti að hann væri á förum. Félagið segir líka að Mbappé hafi neitað að finna lausn á deilunni með því að hafna fundi með franska félaginu.

Leikmannasamtök frönsku deildarinnar, LFP, hlustuðu á rök beggja aðila 15. október síðastliðinn og úrskurðuðu síðan í dag að Paris Saint Germain eigi að greiða Mbappé það sem félagið skuldar honum. Mbappé gekk til liðs við spænska félagið Real Madrid í sumar.

Þetta er samt langt frá því að vera endir málsins því Paris Saint Germain segist ætla að fara með málið fyrir franska dómstóla.

Mbappé spilaði í sjö tímabil með Paris Saint Germain og er markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins með 256 mörk. Hann vann fimmtán titla með félaginu þar af franska meistaratitilinn sex sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×