Íslenski boltinn

Fram­lengdi og getur spilað fyrir fé­lagið í þremur deildum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Freyr Jónasson fagnar hér með liðsfélögum sínum eftir að Aftureldingarliðið tryggði sér sæti í Bestu deildinni eftir sigur á Keflavík í úrslitaleik umspils Lengjudeildar karla.
Andri Freyr Jónasson fagnar hér með liðsfélögum sínum eftir að Aftureldingarliðið tryggði sér sæti í Bestu deildinni eftir sigur á Keflavík í úrslitaleik umspils Lengjudeildar karla. Vísir/Anton

Afturelding spilar í Bestu deildinni í fótbolta í fyrsta sinn næsta sumar og félagið hefur nú samið við einn af markahæstu leikmönnunum í sögu félagsins.

Andri Freyr Jónasson hefur framlengt samning sinn til tveggja ára eða út sumarið 2026.

Hann er 26 ára sóknarmaður sem skoraði 3 mörk í 18 leikjum í Lengjudeildinni í sumar.

Andri Freyr er næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu Aftureldingar með 65 mörk í deild og bikar en einungis Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban hefur skorað fleiri mörk í fimmtíu ára sögu knattspyrnudeildar.

Hann hefur spilað allan sinn feril með Aftureldingu fyrir utan tvö tímabil með Fjölni frá 2021 til 2022.

Andri spilaði í sumar sinn hundraðasta leik með Aftureldingu þegar hann hjálpaði liðinu upp í Bestu deildina í fyrsta skipti. Andri átti einnig stóran þátt í að Afturelding fór upp úr 2. deildinni árið 2018 og á næsta ári getur hann orðið fyrsti leikmaðurinn til að spila með Aftureldingu í þremur efstu deildum Íslandsmótsins.

Andri hefur skorað 19 mörk í 76 leikjum með Aftureldingu í B-deildinni og 24 mörk í 30 leikjum með Aftureldingu í C-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×