Aston Villa tók á móti Bournemouth á Villa Park í dag þar sem allt stefndi í sigur heimamanna eftir að Ross Barkley hafði komið Aston Villa yfir á 76. mínútu.
Þrátt fyrir að gestirnir hafi ekki beint vaðið í færum tókst Brasilíumanninum Evanilson þó að jafna metin með skalla fyrir Bournemouth á sjöttu mínútu uppbótartíma og niðurstaðan því dramatískt 1-1 jafntefli.
Svipaða sögu er að segja af viðureign Brighton og Wolves þar sem Danny Welbeck kom heimamönnum í Brighton yfir á 45. mínútu.
Lengi vel leit út fyrir að það yrði eina mark leiksins, en Evan Ferguson tvöfaldaði forystu heimamanna fimm mínútum fyrir leikslok og Brighton-menn því í afar góðum málum.
Ryan Ait-Nouri minnkaði hins vegar muninn á 88. mínútu áður en Matheus Cunha fullkomnaði endurkomuna á þriðju mínútu uppbótartíma og lokatölur því 2-2.
What a comeback 😍 pic.twitter.com/0HKFpppPXY
— Wolves (@Wolves) October 26, 2024
Dramatíkin var einnig allsráðandi í viðureign Brentford og Ipswich þar segm nýliðar Ipswich komust í 2-0 með mörkum frá Sammie Szmodics og George Hirst.
Yoane Wissa minnkaði hins vegar muninn fyrir heimamenn stuttu fyrit hálfleik áður en Harry Clarke varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net í uppbótartíma og staðan í hálfleik því 2-2.
Snemma í síðari hálfleik kom Bryan Mbuemo heimamönnum yfir með marki af vítapunktinum eftir að áðurnefndur Harry Clarke hafði brotið af sér innan vítateigs. Clarke kórónaði svo ömurlegan leik sinn á 69. mínútu með því að næla sér í sitt annað ula spjald og þar með rautt.
Þrátt fyrir liðsmuninn tókst gestunum að jafna metin á 86. mínútu þegar Liam Delap kom boltanum í netið, en Bryan Mbuemo reyndist hins vegar hetja heimamanna þegar hann tryggði Brentford sigurinn með marki á sjöttu mínútu uppbótartíma.