Íslenski boltinn

„Er að fara út í þjálfun“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson hefur reynst Stjörnuliðinu frábærlega. 
Hilmar Árni Halldórsson hefur reynst Stjörnuliðinu frábærlega.  Vísir/Diego

Hilmar Árni Halldórsson skoraði eitt marka Stjörnunnar þegar hann lék sinn síðasta leik fyrir félagið í 3-2 sigri á móti FH í lokaumferð Bestu deildar karla í fótbolta á Samsung-vellinum í kvöld. 

„Það er svona að sinka inn þessa stundina að fótboltaferlinum sé að ljúka og ég get alveg viðurkennt það að þetta er sérstök tilfinning. 'Eg reyndi að hugsa sem minnst um þetta í aðdraganda leiksins og einbeita mér bara að því að hjálpa liðinu við að vinna leikinn,“ sagði Hilmar Árni sem kom Stjörnunni á bragðið í leiknum með klassísku Hilmars Árna marki. 

Hilmar Árni skipti yfir til Stjörnunnar frá uppeldisfélagi sínu, Leikni, haustið 2015. Hann hefur verið máttarstólpi í liðinu síðan og raðað inn mörkum og stoðsendingum. Hann vann bikartitilinn með liðinu 2018.

Hilmar Árni hefur leikið 191 leik í efstu deild og skorað í þeim 70 mörk. Hann er markahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild með 66 mörk. Hilmar spilaði fjóra landsleiki fyrir Íslands hönd 2018 og 2019.

„Tíminn hjá Stjörnunni hefur verið frábær og kveðjustundin er í takt við það. Nú tekur bara næsti kafli við sem er í þjálfun og ég hlakka bara til þess að takast á við það hlutverk. Leikmannaferillinn hefur gefið mér mikið og fram undan eru öðruvísi áskoranir og verkefni sem spennandi verður að takast á við,“ sagði þessi frábæri sóknartengiliður sem glatt hefur knattspyrnuáhugamenn með tilþrifum sínum. 

Eftir leik var Hilmar Árni knúsaður í bak og fyrir og augljóst að hann hefur markað djúp spor í Stjörnusamfélagið og honum verður minnst með hlýju af stuðningsmönnum félagsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×