„Að gera þetta í fyrstu atrennu, búinn að missa lykilpósta úr liðinu. Halldór og þjálfarateymið bara gjörsamlega negldu þetta tímabil,“ hélt hann svo áfram með ausu af hrósi fyrir þjálfarateymi liðsins.
Það er örsjaldan sem áhorfendur umkringja velli á Íslandi en Breiðablik fékk að spila seinni hálfleikinn í kvöld með grænklædda stuðningsmenn fyrir aftan mark Víkinga. Það hlýtur að hafa gefið liðinu aukinn kraft?
„Heldur betur. Fundum sannarlega fyrir því. Það heyrðist á við 150.000 manns hérna bakvið mörkin og það hjálpaði okkur yfir línuna.“
Leikurinn í kvöld var úrslitaleikur um titilinn, þó Víkingi dugði vissulega jafntefli. Eitthvað sem áhorfendur biðu í ofvæni eftir og leikmenn greinilega líka.
„Við óskuðum þess í langan tíma að þessi leikur myndi raungerast. Maður var eiginlega að óska þess að Víkingur myndi ekki tapa eða misstíga sig til þess að við gætum fengið þennan úrslitaleik. Sannarlega sætt og verðugt að vinna þetta á móti hörkuflottu liði eins og Víkingi.“
„Hann er þyngri en ég hélt,“ sagði Höskuldur svo að lokum um Íslandsmeistaraskjöldinn sem hann var að fara að lyfta.