Fótbolti

Napoli jók for­skotið á toppi deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Romelu Lukaku hefur komið að átta mörkum með beinum hætti (mark eða stoðsending) í átta deildarleikjum á leiktíðinni.
Romelu Lukaku hefur komið að átta mörkum með beinum hætti (mark eða stoðsending) í átta deildarleikjum á leiktíðinni. EPA-EFE/DANIEL DAL ZENNARO

Napoli lagði AC Milan 2-0 á útivelli í stórleik kvöldsins í Serie A, efstu deild karla í fótbolta á Ítalíu. Lærisveinar Antonio Conte eru komnir með sjö stiga forystu á toppi deildarinnar.

Segja má að Napoli hafi gert út um leikinn í fyrri hálfleik. Romelu Lukaku skoraði með skoti af stuttu færi eftir að Frank Anguissa renndi boltanum á Belgann sem var þarna að skora sitt fjórða mark í deildinni.

Leikurinn var svo í járnum þangað til á markamínútunni frægu (43.) en þá sýndi Khvicha Kvaratskhelia snilli sína þegar hann lék á mann og annan áður en hann smellti boltanum niðri í hornið hægra megin án þess að Mike Maignan kæmi neinum vörnum við í marki AC Milan.

Snemma í síðari hálfleik hélt Samuel Chukwueze að hann hefði minnkað muninn en markið var á endanum dæmt af vegna rangstöðu í aðdraganda marksins. Reyndist þetta besta tækifæri AC Milan til að minnka muninn en leiknum lauk með 2-0 sigri gestanna.

Napoli trónir áfram á toppi deildarinnar með 25 stig að loknum tíu umferðum. Inter er sæti neðar með 18 stig og leik til góða. AC Milan er hins vegar í 8. sæti með aðeins 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×