Íslenski boltinn

Ómar Ingi þakkar fyrir sig eftir þrjá­tíu ár

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Guðmundsson á hliðarlínunni á leik HK gegn KR í lokaumferð Bestu deildarinnar á laugardag. Það reyndist síðasti leikur hans sem þjálfari HK, í bili að minnsta kosti.
Ómar Ingi Guðmundsson á hliðarlínunni á leik HK gegn KR í lokaumferð Bestu deildarinnar á laugardag. Það reyndist síðasti leikur hans sem þjálfari HK, í bili að minnsta kosti. vísir/Anton

Ómar Ingi Guðmundsson er að eigin ósk hættur sem þjálfari HK-inga í fótbolta, eftir að samningur hans við félagið rann út nú við lok leiktíðar.

Ómar Ingi þakkar fyrir sig á Twitter, nú þegar hann segir skilið við félagið sem hann hefur tilheyrt í um þrjá áratugi. „Takk HK fyrir síðustu um það bil 30 árin,“ skrifar þjálfarinn.

Ómar Ingi hafði sinnt þjálfun hjá HK nær samfellt frá árinu 2000 þegar hann var ráðinn aðalþjálfari meistaraflokks karla árið 2022. Hann hafði verið aðstoðarþjálfari í skamman tíma en tók svo við sem aðalþjálfari þegar Brynjar Björn Gunnarsson var ráðinn til Örgryte í Svíþjóð í maí þetta ár.

Ómar Ingi stýrði HK upp úr Lengjudeildinni í fyrstu tilraun og hélt svo liðinu þar í fyrra. Liðið féll hins vegar niður um deild um helgina, á verri markatölu en Vestri.

„Stjórn knattspyrnudeildar þakkar Ómari Inga fyrir góðar stundir í Kórnum og ómetanlegt framlag til félagsins undanfarin ár. Ómar sem er svo sannarlega einn af dáðardrengjum HK hefur í gegnum árin unnið gífurlega gott starf og komið náið að uppgangi knattspyrnudeildar HK,“ segir í tilkynningu HK.

HK-ingar hafa nú hafið leit að eftirmanni Ómars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×