Fótbolti

„Fót­boltinn er fyrir alla en ekki bara fyrir Real Madrid“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Agüero skaut á fýlupúkana í Real Madrid sem að hans mati halda að þeir séu merkilegri en aðrir.
Sergio Agüero skaut á fýlupúkana í Real Madrid sem að hans mati halda að þeir séu merkilegri en aðrir. Getty/Cesc Maymo

Argentínumaðurinn Sergio Agüero er markahæsti leikmaður Manchester City frá upphafi og hann hefur tjáð sig um leikrit spænska stórliðsins Real Madrid í kringum við verðlaunahátíð Gullhnattarins á mánudagskvöldið.

Real Madrid hætti skyndilega við það að mæta á verðlaunahátíðina í París eftir að þeir töldu sig fullvissa um það að leikmaður þeirra Vinícius Júnior fengi ekki verðlaunin.

Real Madrid gaf það út að þar sem að félaginu væri ekki sýnd virðing þá væri engin ástæða fyrir þá til að mæta.

Það fór svo að Rodri, leikmaður Englandsmeistara Manchester City og Evrópumeistara Spánar, fékk Gullhnöttinn.

Real Madrid átti þrjá leikmenn í fjórum efstu sætinum því Vinícius Júnior varð í öðru sæti, Jude Bellingham þriðji og Dani Carvajal í fjórða sætinu.

Agüero skaut á hegðun Real Madrid manna. Að hans mati var engin spurning um að Rodri var besti leikmaður ársins.

„Hann átti þetta skilið. Rodri er besti fótboltamaður heims,“ sagði Agüero og bætti við:

„Fótboltinn er fyrir alla en ekki bara fyrir Real Madrid. Þeir eru svo miklir forréttindapésar,“ sagði Agüero.

Agüero er enginn aðdáandi Real Madrid enda lék hann bæði með Atlético Madrid og Barcelona.

Frammistaðan með landsliði hefur alltaf skipt mestu máli þegar Ballon d'Or verðlaunin eru veitt. 

Frammistaða Vinícius Júnior í landsliðsbúningi Brasilíu sem og gengi brasilíska liðsins olli miklum vonbrigðum en á sama tíma var Rodri Evrópumeistari með Spáni og besti leikmaður Evrópumótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×