Erlent

Leita manns sem skildi eftir sprengi­efni á lestar­stöð í Ber­lín

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá lestarstöð í Neukölln-hverfinu í Berlín. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Frá lestarstöð í Neukölln-hverfinu í Berlín. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Lögreglan í Berlín í Þýskalandi leitar nú manns sem skildi eftir tösku fulla af sprengiefni á lestarstöð og flúði þegar lögreglumenn reyndu að stöðva hann í gær. Enn hefur ekki tekist að bera kennsl á manninn.

Sprengiefnin skildi maðurinn eftir á Neukölln-lestarstöðinni í sunnanverðri Berlín. Þegar ríkislögreglumenn stöðvuðu hann tók hann til fótanna, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Sprengusveit lögreglunnar eyddi sprengiefnunum á bílastæði í nágrenninu.

Þýska dagblaðið Bild hélt því fram að efnið í töskunni hafi verið þríasetón þríperoxíð, óstöðugt sprengiefni sem gengur undir heitinu TATP, sem öfgamenn hafa áður notað í hryðjuverkaárásum. Lögreglan hvorki neitar né staðfestir þær fregnir en segist rannsaka alla möguleika.

Lögreglumaður sem dagblaðið Berliner Zeitung vitnar í segir að svo virðist sem að tekist hafi að koma í veg fyrir árás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×