Kristinn fór meiddur af velli í fyrri hálfleik í úrslitaleik Bestu deildarinnar á sunnudaginn, þar sem Breiðablik sigraði Víking, 0-3.
Kristinn lenti í samstuði við Víkinginn Erling Agnarsson og fékk heilahristing og kinnbeinsbrotnaði. Hann var því á spítala meðan samherjar hans voru að fagna Íslandsmeistaratitlinum.
Í dag fékk Kristinn loks gullmedalíuna sína. Ekki nóg með það heldur skrifaði hann undir nýjan eins árs samning við Breiðablik.
Kristinn kom aftur til Breiðabliks fyrir tímabilið. Hann lék 23 af 27 leikjum liðsins í Bestu deildinni og skoraði tvö mörk.
Kristinn, sem er 34 ára, varð einnig Íslandsmeistari með Breiðabliki 2010 og KR 2019. Þá varð hann bikarmeistari með Blikum 2009.