Körfubolti

„Þessi tími hefur liðið mjög hægt fyrir mér“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir í leik í lokaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor
Sara Rún Hinriksdóttir í leik í lokaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor Vísir/Diego

Ein besta körfuboltakonan landsins hefur sett hring utan um leik í bikarkeppninni í dagatalið. Sara Rún stefnir á endurkomu gegn Njarðvík í desember.

Landsliðskonan Sara Rún Hinriksdóttir hefur verið að glíma við meiðsli í hásin undanfarnar vikur. Hún hefur ekkert komið við sögu á tímabilinu með Keflvíkingum, en liðið vann alla titla sem í boði voru á síðasta tímabili. Keflavík mætir Njarðvík í bikarnum 7. desember og ætlar Sara að vera klár þá.

„Ég held að það sé alltaf mjög erfitt fyrir alla leikmenn að verða fyrir meiðslum en þetta er partur af þessu. Þessi tími hefur liðið mjög hægt fyrir mér en ég er öll að koma til núna,“ segir Sara í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

Samviskubit

Hún segist fá samviskubit yfir því að vera bregðast liðsfélögum sínum þegar hún er fjarverandi vegna meiðsla.

„Þetta er öðruvísi hérna heima, en þegar það gengur vel þá líður manni kannski ekki eins illa. En ef það gengur ekki nægilega vel þá er erfitt að upplifa eins og maður ætti að vera hjálpa, og líka erfitt að segja öðrum til þegar maður getur ekkert gert sjálf.“

Sara Rún hefur verið að glíma við meiðsli í hásin. Í úrslitakeppninni í vor hélt Sara að hún væri mögulega að slíta hásin.

„Þetta var í raun þannig en síðan kemur í ljós að sinin hefur farið aðeins í sundur og það er eitthvað bein að myndast þarna, ég kann ekki að segja frá þessu. Ég er að styrkja mig og ætti að vera komin til baka eftir nokkrar vikur. Ég er að horfa á einn leik til að koma til baka í og það er í bikarnum, gegn Njarðvík,“ segir Sara og brosir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×