Skoðun

Fræðslu­skylda í stað skóla­skyldu

Eldur Smári Kristinsson skrifar

Við viljum öll að börnin okkar læri að hugsa sjálfstætt og geti nýtt hæfileika sína og áhugasvið til að blómstra. Við hljótum að óska þess að þau siðferðislegu gildi sem þau fá í veganesti muni leiða þau áfram til blessunar og hamingju. Grunnurinn að góðu samfélagi eru góð gildi. Samfélag er ekki frjálst ef það er undirlagt af glæpum, spillingu eða aftengingu við gott siðgæði. Við viljum búa ungmennin okkar undir það gríðarlega verk að stjórna samfélaginu í framtíðinni og þá er eins gott að við höfum gert vel við þau, svo þau sjái vel um okkur í framtíðinni.

Við viljum gefa börnunum okkar heilbrigt veganesti svo þau geti skapað gott og sanngjarnt samfélag í framtíðinni. Samfélag þar sem frelsi og ábyrgð séu hornsteinar alls.

Þess vegna vill Lýðræðisflokkurinn setja eftirfarandi í öndvegi í menntamálum leik-og grunnskóla:

1. Íslenska er tungumál leik-og grunnskóla. Bæði starfsmanna og barna.

Tryggja verður þeim starfsmönnum leikskóla er hafa annað tungumál að móðurmáli kennslu í íslensku til að ná amk lágmarksfærni til starfans.

Íslenskukennsla barna og foreldra af erlendum uppruna er sett í algjöran forgang við komu til landsins.

2. Samvinna heimila og skóla verði byggð á traustum grunni jákvæðra gilda s.s. ábyrgð, umhyggju og sáttfýsi. Mikilvægt verði að gildi lýðræðis séu í öndvegi í öllum samskiptum milli heimila, skóla og skólaheilbrigðisþjónustu. Umburðarlyndi sé haft að leiðarljósi og að frelsi til mismunandi skoðana, viðhorfa og vinnubragða sé virt. Helstu gildi lýðræðislegs samstarfs eru: Jafngildi allra manna, virðing fyrir einstaklingum og samábyrgð.

3. Fræðsluskylda tekin upp í stað skólaskyldu.

Foreldrar njóti frelsis í ákvarðanatöku er kemur að grunnmenntun barna. Hvatt er til fjölbreyttara rekstrarforms skóla og að foreldrum/forsjáraðilum verði gert kleift í krafti eigin þekkingar eða í samvinnu við aðra að sjá um fræðslu barna skv. aðalnámskrá leik-og grunnskóla. Fjármagn fylgi hverju barni óháð rekstrarformi skólans á jafnræðisgrundvelli. Ábyrgðaraðili rekstrareiningar sé íslenskur ríkisborgari.

4. Reglubundið eftirlit með lestrarkunnáttu, lesskilningi og stærðfræðigetu barna og ungmenna með endurupptöku á samræmdum prófum.

5. Ástundun í litakóðum og einkunnir í bókstöfum lagðar niður. Sama gildir staðbundin punktakerfi. Einkunnaskalinn frá 1-10 er auðskiljanlegur og einfaldur í notkun.

6. Skráning persónuupplýsinga barna í Mentor verði hætt.

7. Umdeildar kenningar úr gremjufræðum félagsvísindadeilda háskólanna eins og t.d. hinsegin fræði, (e. Queer Theory) Critical Theory og Critical Race Theory séu ekki kennd börnum sem um staðreyndir séu að ræða.

8. Hollustuhættir í skólastarfi

Næringarrík fæða – hreyfing og snjalltækjalaus skóli. Nemendur efli líkamlegan þroska sinn, heilbrigði og þrek. Nemendur tileinki sér mikilvægi reglubundinnar hreyfingar sem hentar þeim. Nemendur efli líkamsvitund sína og hæfileika til tjáningar og sköpunar. Grunnskólar séu snjalltækjalausir vinnustaðir og unnið sé meira markvisst í þágu félagsfærni og gegn einmanaleika, depurð og kvíða.

9. Horfið sé frá „skóla án aðgreiningar“ og sérkennslufræði tekin upp að nýju.

Sérhverju barni sé tryggð skólaganga þar sem athyglinni er beint að hæfileikum og styrkleikum þess.

10. Raunveruleikatengsl barna stórefld

Eftir 15 ára reynslu áhrifa samfélagsmiðla á börn og ungmenni er það augljóst að brýna þarf fyrir börnum að temja sér eðlislægt skynbragð á raunveruleikann með tilkomu svokallaðrar gervigreindar.

11. Pólitískar alþjóðastofnanir ekki hlutaðeigandi í íslensku skólastarfi

Aðalnámskrá leik-og grunnskóla sé ætíð í höndum íslenskra fagaðila sem starfa sjálfstætt og án skuldbindinga við erlend samtök og/stofnanir.

Íslenskt samfélag er á krossgötum. Við getum ekki sætt okkur við samfélag þar sem helmingur drengja og þriðjungur stúlkna geta ekki lesið sér til gagns. Við getum ekki unað við samfélag þar sem börnin okkar hafa aldrei verið eins vansæl.

Við verðum að velta ábyrgðinni á fræðslu barna og ungmenna á okkur öll sameiginlega.

Ef ekki, þá heldur áfram að molna úr stoðum lýðræðissamfélagsins og lífskjörin okkar hrörna í takt.

Höfundur er oddviti Lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×