Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna um klukkan hálf sjö alla daga vikunnar, stundum fyrr ef mikið er að gera. Væri alveg til í að sofa lengur um helgar en það gerist bara ekki, svo ég er oft búinn að vinna í einn eða tvo tíma áður en konan mín vaknar.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég byrja yfirleitt daginn á að hugleiða í tuttugu mínútur. Síðan elda ég ómótstæðilegan hafragraut fyrir okkur hjónin sem borinn er fram með heimagerðu múslíi og eplum.
Ég fer síðan alltaf í göngutúr með hundinn minn Mola, algerlega óháð veðri. Á meðan lagar konan mín einstaklega gott kaffi sem ég drekk áður en ég fer í vinnuna.“
Ef þú værir hetja/karakter úr teiknimyndasögu, hver værir þú þá?
Ég horfi mjög lítið á teiknimyndir og ákvað því að biðja tvær afastelpur að svara þessari flóknu spurningu.
Einróma niðurstaða þeirra var Kristján í Frozen af því að hann væri svo mikill dýravinur.“

Í hvaða verkefni ertu helst að vinna í þessa dagana?
„Landsvirkjun er alltaf með ótrúlega mörg járn í eldinum. Mikill tími fer hjá mér þessa mánuðina að styðja við fólkið sem er að vinna að því að koma virkjanaframkvæmdum við Búrfellslund, Hvamm, stækkun Sigöldu og Þeistareykja í gang.
Það eru líka miklar áskoranir tengdar slakri stöðu í vatnsbúskapnum þessa dagana. Það þarf að fylgjast náið með og ákveða hvernig við tökumst á við áhættu tengda henni.
Svo vonum við bara innilega að það rigni meira uppi á hálendinu áður en það kemur hávetur.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég skipulegg helstu áherslur dagsins í morgungönguferðinni með Mola. Ég er líka með vikulega „maður-á-mann“ fundi með þeim sem heyra beint undir mig, svo stýri ég framkvæmdastjórnarfundum tvisvar í viku og svo framvegis.
Þegar við fluttum í Katrínartúnið lögðum við af allar einkaskrifstofur og allt starfsfólk fór í opið vinnurými. Það er því auðvelt að nálgast mig með erindi en svo getur starfsfólk líka bókað tíma með mér í Outlook.
Það er líka nauðsynlegt að taka frá tíma til að geta unnið að verkefnum svo ég blokka yfirleitt nokkra hálfa daga í hverri viku til þess.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég fer yfirleitt með bók ótengda vinnunni í rúmið um ellefuleytið en þá erum við hjónin aftur búin að fara í góðan göngutúr með Molann okkar.“