Íslenski boltinn

Oliver kveður Breiða­blik

Sindri Sverrisson skrifar
Blikar sjá á eftir miklum leiðtoga í Oliver Sigurjónssyni sem hér fagnar Íslandsmeistaratitlinum 2024.
Blikar sjá á eftir miklum leiðtoga í Oliver Sigurjónssyni sem hér fagnar Íslandsmeistaratitlinum 2024. vísir/Anton

Knattspyrnumaðurinn Oliver Sigurjónsson tilkynnti á Instagram í dag að hann hefði nú kvatt Breiðablik og myndi spila fyrir annað félag á næstu leiktíð.

Oliver, sem er 29 ára, er uppalinn hjá Breiðabliki og fyrir utan tíma sinn erlendis hefur hann ætíð spilað fyrir Blika hér á landi. Hann hefur unnið tvo af þremur Íslandsmeistaratitlum Breiðabliks; árið 2022 og svo aftur í ár.

Oliver segir í færslu á Instagram að draumur sinn hafi alltaf verið, frá því hann var þriggja ára strákur, að spila með Breiðabliki á Kópavogsvelli. Hann skrifar:

„Fyrsta minningin er frá sand gervigrasinu fyrir utan Smárann (þar sem Fífan er núna).

Næstu minningar eru Vallargerði, Smárahvammsvöllur, Fífan, Einar Sumarliðason og Madda (starfsmenn Breiðabliks), yngri flokka mótin og æfingarnar.

Ég hef verið seldur erlendis tvisvar og komið til baka.

Ég hef unnið titla, spilað fullt af Evrópuleikjum og spilað marga leiki.

Það mikilvægasta er þó fólkið og vinasamböndin sem hafa skapast og það er það sem mig langar að þakka fyrir hjá Breiðablik.

Takk stuðningsmenn, starfsmenn, þjálfarar, sjálfboðaliðar og leikmenn.

Nú tekur við mjög spennandi tími og tækifæri í fótboltanum til að læra og bæta mig sem leikmann og manneskju. Sjáumst síðar í öðrum lit.“

Oliver lék alls 152 leiki í efstu deild fyrir Breiðablik og skoraði í þeim fimm mörk. Eins og hann segir frá sjálfur hefur hann tvívegis farið erlendis, fyrst til AGF í Danmörku árið 2012 í tvö ár og svo til Bodö/Glimt í Noregi 2017-2019, en þó með lánsdvöl hjá Blikum 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×