Þetta segir í fréttatilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, sem fékk Maskínu til að framkvæma könnunina dagana 1. til 6. nóvember. Svarendur voru 1.500.
Spurningin sem lögð var fyrir hljóðaði svo: Telur þú eðlilegt eða óeðlilegt að ráðherra í starfsstjórn gefi út nýtt leyfi til veiða á langreyðum? Í töflunni hér að neðan má sjá hvernig svör skiptust.

Lögin óbreytt frá 1949
Í tilkynningu samtakanna segir að ákvarðanataka um hvalveiðar og stjórnsýsla lúti lögum frá árinu 1949. Lögin hafi staðið óbreytt frá þeim tíma. Á sama tímabili hafi umræða um velferð dýra og umhverfismál tekið stakkaskiptum, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi.
Íslendingar neyti ekki kjöts af langreyðum og markaður fyrir hvalkjöt í Japan sé innan við 2000 tonn á ár.
Í febrúar síðastliðnum hafi þáverandi forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, skipað starfshóp sem fékk það verkefni „að rýna lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, valdheimildir og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli.“
Starfshópnum hafi verið ætlað að skila skýrslu þar sem fram komi valkostagreining um mögulegar leiðir til úrbóta og stefnumótunar. Valkostir skyldu bæði taka mið af áframhaldandi veiðum sem og takmörkun eða banni við veiðum til framtíðar. Skýrslunni væri ætlað að vera grundvöllur fyrir framtíðarstefnumótun um hvalveiðar.
Sérkennileg stjórnsýsla að mati samtakanna
Þá segir að eftir því sem næst verði komist hafi starfshópurinn hafið vinnu sína en fátt bendi til þess að henni verði lokið fyrir lok þessa árs.
„Það væri afar sérkennileg stjórnsýsla að, Bjarni Benediktsson starfandi matvælaráðherra í starfsstjórn, gæfi út leyfi til veiða á langreyðum til næstu 5 eða 10 ára samkvæmt lögum sem hafa staðið óbreytt í 75 ár og virti þar með að vettugi vinnu starfshóps um hvernig megi færa lög um hvalveiðar í átt til nútímans. Slík ákvörðun myndi binda hendur íslenskra stjórnvalda jafn lengi og hugsanlegt leyfi gildir. Slík ákvörðun stenst ekki kröfur um nútíma stjórnsýsluhætti.“