Mörgum þykir fjarstæðukennt að tilnefna Gaetz í embættið, ekki síst vegna rannsóknarinnar en hann hefur verið sakaður um að hafa átt í sambandi við sautján ára stúlku og mögulega brotið lög gegn mansali.
Málið var rannsakað af hálfu dómsmálaráðuneytisins í um tvö ár en lokað án ákæru í fyrra.
Siðanefndin hefur hins vegar haft það áfram til umfjöllunar og einnig kannað ásakanir um að Gaetz hafi misnotað kosningaframlög og deilt óviðurkvæmilegum myndum og myndskeiðum á þinginu.
Tilnefning Trump virðist hafa komið Repúblikönum jafn mikið á óvart og öðrum og efasemdir eru uppi um að hún nái í gegn á þinginu, þrátt fyrir að Repúblikanaflokkurinn sé nú í meirihluta í báðum deildum.
Skýrsla siðanefndarinnar er sögð hafa verið tilbúin til útgáfu og þá hefur New York Times eftir Max Miller, þingmanni Repúblikanaflokksins frá Ohio, að honum þyki hreint út sagt ótrúlegt að Gaetz hyggist beygja sig undir staðfestingarferlið fyrir öldungadeildinni, þar sem allt verður dregið upp á yfirborðið.
Á hinn bóginn virðast aðrir þingmenn fegnir að vera lausir við Gaetz.
„Það kemur mér á óvart að Matt ætli að gera sjálfum sér þetta,“ segir Miller. „Ég ætla að ná mér í stóran popp og fremsta sætið fyrir það sjónarspil.“