Fótbolti

Tekur við Roma á ný 73 ára gamall

Sindri Sverrisson skrifar
Claudio Ranieri er öllum hnútum kunnugur hjá Roma.
Claudio Ranieri er öllum hnútum kunnugur hjá Roma. Getty/Alessandro Sabattini

Claudio Ranieri hefur starfað við fótboltaþjálfun í tæpa fjóra áratugi og þessi 73 ára gamli Ítali er nú tekinn við liði Roma, í þriðja sinn á ferlinum.

Roma staðfesti ráðningu Ranieri í dag en hann er fæddur í Rómarborg og spilaði með liðinu tímabilið 1973-74, auk þess að þjálfa það árin 2009-2011 og aftur 2019.

Ranieri verður ekki lengi þjálfari Roma því við lok þessarar leiktíðar mun hann taka við nýju starfi sem sérstakur ráðgjafi eigenda félagsins varðandi öll fótboltatengd mál. Leit að arftaka hans mun halda áfram næstu mánuði.

Roma rak þjálfarann Ivan Juric í byrjun vikunnar eftir 3-2 tap gegn Bologna í ítölsku A-deildinni. Hann skildi við liðið í aðeins 12. sæti deildarinnar, eftir einn sigur í síðustu sex leikjum.

Ranieri hefur komið víða við á löngum ferli en er líklega kunnastur fyrir ævintýrið stórkostlega með Leicester sem hann gerði að Englandsmeistara árið 2016. Hann var nú síðast þjálfari Cagliari en hætti þar í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×